27 sagt upp á The Reykjavík Edition

Ninna segir engar breytingar verða á starfsemi hótelsins þrátt fyrir …
Ninna segir engar breytingar verða á starfsemi hótelsins þrátt fyrir uppsagnir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

27 starfsmönnum lúxushótelsins The Reykjavík Edition við Hörpu, sem er rekið er í samtarfi við hótelrisann Marriott, hefur verið sagt upp störfum.

Þetta staðfestir Dennis Jung, framkvæmdastjóri hótelsins, í samtali við mbl.is. Uppsagnirnar ná til starfsfólks úr öllum deildum.

Ástæða uppsagnanna er minnkandi eftirspurn eftir gistingu vegna Ómíkron-bylgju kórónuveirufarldursins og þau áhrif sem harðar sóttvarnareglur hafa haft á ferðaþjónustu, að sögn Dennis. Eftirspurnin hafi ekki verið jafn mikil og væntingar stóðu til fyrir tímabilið.

Engar breytingar á starfseminni 

Tekið var á móti fyrstu gestum hótelsins um miðjan október á síðasta ári, en þá voru 106 af 253 herbergjum hótelsins tekin í notkun í fyrsta áfanga.

Dennis segir engar breytingar verða á starfseminni þrátt fyrir uppsagnirnar. Áfram verði sami fjöldi herbergja í notkun. „Við erum ekki að loka neinu á hótelinu. Við höldum starfseminni áfram með sama fjölda herbergja, veitingastaðurinn er opinn og barinn er opinn. Við drögum ekki úr þjónustu á hótelinu.“

Vilja fá þjálfað starfsfólk til baka 

Hann segir jákvæð teikn á lofti og endalok faraldursins vonandi í nánd en gera hafi þurft ráðstafanir til að tryggja starfsemina betur fjárhagslega þar til betra tímabil taki við. Hann vonast til að annar fjórðungur ársins verði strax betri.

„Markaðurinn lítur vel út og lofar góðu. Við horfum fram á mun betra sumar,“ segir Dennis.

Hann gerir ráð fyrir að flestir þeirra sem sagt var upp verði endurráðnir þegar eftirspurn eykst á ný. „Við höfum þjálfað allt þetta fólk þannig við viljum fá alla aftur, eins fljótt og við getum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert