Engar alvarlegar aukaverkanir hjá 5 til 11 ára

Frá bólusetningu barna í Laugardalshöll.
Frá bólusetningu barna í Laugardalshöll. mbl.is/Kristinn Magnússon

Engar tilkynningar hafa borist Lyfjastofnun um grun um alvarlegar aukaverkanir í kjölfar bólusetningar gegn Covid-19 í aldurshópnum 5 til 11 ára. Bólusetning hópsins hófst fyrir rúmum tveimur vikum síðan. Átta tilkynningar um grun um aukaverkanir, sem þá eru ekki alvarlegar, innan hópsins hafa borist Lyfjastofnun. 

Alls hafa 279 tilkynningar vegna gruns um alvarlega aukaverkun í kjölfar bólusetningar gegn Covid-19 borist Lyfjastofnun. Til þess að setja þá tölu í samhengi þá hafa 307.095 einstaklingar hérlendis fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni. 

„Mikilvægt er að hafa í huga að um er að ræða tilkynningar vegna gruns um aukaverkun. Það merkir að tilkynnt tilvik hafa átt sér stað í kjölfar bólusetningar gegn COVID-19, en segir ekki til um hvort um orsakasamhengi er að ræða milli tilvikanna og bólusetningarinnar,“ er ítrekað á vefsíðu Lyfjastofnunar. 

187.623 hafa fengið örvunarskammt af bóluefni, þ.e. þriðja skammtinn, en ekkert hefur bæst í tilkynningar um grun um alvarlegar aukaverkanir í hópi þeirra sem hafa fengið örvunarskammt frá því í desember. Alls hafa 17 tilkynningar um grun um alvarlega aukaverkun í kjölfar örvunarbólusetningar borist Lyfjastofnun frá upphafi.

mbl.is