„Sérvizka hvers og eins“ fái að ráða eftir dauðann

Pétur er ánægður með frumvarpið.
Pétur er ánægður með frumvarpið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Pétur Þorsteinsson, safnaðarprestur Óháða safnaðarins, fagnar frumvarpi sem hefur það að markmiði að veita fólki meira frelsi til þess að ákveða hvernig og hvort jarðneskar leifar þeirra séu varðveitt­ar, grafn­ar eða þeim dreift.

Pétur segir í umsögn um frumvarpið að hér sé á ferðinni gott skref. Hann telur að með því að leyfa vilja hins látna að ráða um það hvort grafa eigi öskuker hans eða dreifa öskunni fái „sérvizka hvers og eins“ að ráða „út yfir gröf og dauða“ en „kerfiskallar og kellingar hafi sem minnst um það að segja, hvort sé tilhlýðilegt eður ei.“

Pétur bendir á að ekki sé „svo mikið af ösku í öskukerinu, að yrði um viðamikið öskufall um að ræða“.

Töluverð opinber íhlutun

Fyrsti flutn­ings­maður er Bryn­dís Har­alds­dótt­ir, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks, en samtals standa tólf þingmenn að frumvarpinu úr Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki, Viðreisn, Flokki fólksins, Pírötum, Vinstri grænum og Samfylkingu. Það eru þau Herdís Anna Þorvaldsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Una Hildardóttir, Willum Þór Þórsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Guðjón S. Brjánsson, Hanna Katrín Friðriksson, Inga Sæland, Björn Leví Gunnarsson, Andrés Ingi Jónsson, Þórarinn Ingi Pétursson. Frum­varpið hef­ur tví­veg­is áður verið flutt á þingi en ekki hlotið af­greiðslu.

Flutn­ings­menn segja að gild­andi lög feli í sér tölu­verða op­in­bera íhlut­un þegar kem­ur að jarðnesk­um leif­um fólks. Sú íhlut­un er að þeirra mati ónauðsyn­leg og vilja þeir að dreif­ing jarðneskra leifa verði gef­in frjáls. Þeir leggja til að áfram verði búið um ösku eft­ir lík­brennslu í þar til gerðum duft­kerj­um. Aft­ur á móti verði gefið frjálst hvað gert verði við ker­in. Þeir vilja að ekki verði leng­ur skylda að grafa ker­in niður í grafar­stæði eða leggja þau í leiði vanda­manna held­ur verði um heim­ild að ræða. Bent er á að nú séu um 35% allra út­fara bálfar­ir og þeim hafi fjölgað sem óska eft­ir því að ösk­unni megi dreifa utan kirkju­g­arða. Nú­ver­andi ákvæði sem heim­ili slíkt með leyfi sýslu­manns telja þeir of ströng. Áfram sé þó rétt að kveða á um dreif­ingu ösku lát­ins manns í reglu­gerð, þar á meðal um upp­lýs­ing­ar til legstaðaskrár um staðsetn­ingu dreif­ing­ar ösku. Flutn­ings­menn vekja at­hygli á því að í ná­læg­um lönd­um sé dreif­ing ösku ekki tak­mörkuð eins mikið og hér, svo sem er varðar staðsetn­ingu eða auðkenn­ingu slíkra dreif­ing­arstaða.

Kirkju­g­arðasam­bandið hef­ur í um­sögn um frum­varpið sagt að breyt­ing­arn­ar sem það boðar séu var­huga­verðar. Hvergi á Norður­lönd­um hafi verið gengið eins langt í að slaka á reglu­verk­inu og frum­varpið legg­ur til að gert verði hér á landi.

Víðast hvar sé dreifingin ekki takmörkuð eins mikið og hér

Aftur á móti segir í greinargerð um frumvarpið að víðast hvar í nálægum löndum sé dreifing ösku ekki takmörkuð eins mikið og hér, svo sem er varðar staðsetningu eða auðkenningu slíkra dreifingarstaða.

„Til að mynda þekkist á Norðurlöndunum að sérstakir skógar séu fyrir dreifingu líkamsleifa og þar megi setja upp minningarskjöld sem ættingjar geta svo vitjað og viðhaldið. Á Norðurlöndunum eru þó ákveðin skilyrði fyrir dreifingu ösku en þau eru almennt rýmri en hér tíðkast. Alla jafna þarf að tilkynna og/eða upplýsa um dreifingarstað ösku sem getur verið eftir atvikum háð leyfi stjórnvalda eða eiganda/umráðamanns lands.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert