Skiptar skoðanir á fræðslu um „kyrkingar“

Efst til vinstri er Sigga Dögg, við hennar hlið er …
Efst til vinstri er Sigga Dögg, við hennar hlið er Hanna Björg Vilhjálmsdóttir. Neðst til vinstri er María Hjálmtýsdóttir og neðst til hægri Edda Falak.

„Þetta er stundum svolítið erfitt [...], að vera í kynfræðslunni af því að maður vill passa sig, maður vill gera svo vel. Fólk hefur svo sterkar skoðanir og getur orðið svo  reitt,“ segir Sigríður Dögg Arnardóttir, sem gjarnan er þekkt sem Sigga Dögg, kynfræðingur í myndskeiði á Instagram. Störf hennar voru í gær gagnrýnd harðlega af tveimur kynjafræðikennurum. Síðan þá hefur skapast mikil umræða um málið á samfélagsmiðlum og hafa nokkrir ungir aðgerðasinnar sagst standa með Siggu Dögg.

Hún birti fyrir skemmstu myndskeið á Instagram-síðu sinni þar sem hún ræðir um kynfræðslu, án þess þó að ávarpa sérstaklega þá gagnrýni sem Hanna Björg Vilhjálmsdóttir og María Hjálmtýsdóttir kynjafræðikennarar settu fram í aðsendrum pistli á Vísi í gær.

Í myndskeiðinu segist Sigga Dögg brenna fyrir kynfræðslu.  „Það er erfitt að skilja hvað gerist í kennslustund nema þú sért þar. Það er svo dýrmætt eftir á að fá samtalið bæði við krakkana og kennarana.“

„Kennir unglingunum okkar að kyrkja hvert annað“

Sigga Dögg hefur talað opinskátt á Instagram um svokallaðar kyrkingar í kynlífi, þar sem þrengt er að öndunarvegi, og sagt að hún ræði við ungmenni um þær þegar hún er spurð um slíkt. Í þess konar tilvikum segir Sigga Dögg að hún leggi áherslu á að slíkt sé ekki gert nema með upplýstu samþykki beggja og þá þurfi að fara varlega að slíkum kyrkingum. „Ég skal kenna ykkur hvernig þetta virkar þannig að þetta sé á öruggan hátt og þetta sé með samþykki og öllum líði vel með það,“ sagði Sigga Dögg í „story“ á Instagram nýverið að hún segði við ungmenni ef þau spyrðu hana um kyrkingar. „Ég hef fundið að það er mikill áhugi fyrir þessu og þetta má ekki verða tabú.“

Hanna Björg og María sögðu í grein sinni, þar sem þær nafngreindu vissulega ekki Siggu Dögg, að þeim bæri skylda til þess að láta í sér heyra þegar „aðkeypti kynfræðarinn valsar um allt land og kennir unglingunum okkar að kyrkja hvert annað í nafni kynfrelsis.“

Þá bættu þær því við að þrenging að hálsi geti valdið meðvitundarleysi á örskömmum tíma og óafturkræfar afleiðingar geta komið fram síðar sem leiða í einhverjum tilfellum til dauða.

Allt í lagi að fylgjast með umræðu og grípa hana

Í myndskeiðinu á Instagram, sem eins og áður segir er ekki beint svar við gagnrýni Hönnu og Maríu en birtist skömmu eftir að þær settu gagnrýnina fram, segir Sigga Dögg að hún spyrji ungmennin sem hún fræði gjarnan um það hvað sé í tísku í kynlífi þá stundina og taki þá umræðuna við þau um það. „Það er allt í lagi að fylgjast með umræðu og grípa hana,“ segir Sigga Dögg.

Á Twitter svarar hún pistli Hönnu Bjargar og Maríu stuttlega og segir að kennarar sitji hennar fyrirlestra og að hún segi foreldrum það sama og ungmennum. Hún hafi farið á fullorðinsnámskeið í svokölluðu „breath play“ og hafi hún fjallað um það sem slíkt á Instagam. 

Hún fær oft erfiðar spurningar í kynfræðslunni en segist allaf mæta þeim, óhrædd við unglingana og það sem þeir vilja vita. Sigga Dögg segir það hlutverk kynfræðslunnar að reyna að brúa bilið á milli unglinga og foreldra og segist hún þakklát fyrir að fá að setjast niður með ungmennum og ræða við þau um þessi málefni. Þá segist hún meðvituð um mikið ákall eftir aukinni kynfræðslu og að slíkt sé í vinnslu víða hjá hinu opinbera.

„Mín orð enda yfirleitt á því að spyrja hvaða fullorðnu manneskju þú getur leitað til í þínu lífi, við hvern geturðu talað sem þú treystir?“ segir Sigga Dögg sem hefur unnið við kynfræðslu í 12 ár.

„Það skiptir máli að taka stund þar sem er rætt heiðarlega og opinskátt um kynlíf. Það er ekkert sem má ekki ræða.“

Þeir sem niðurlægja megi upplifa skömm

Hanna Björg og María segja í sínum pistli að klám og klámvæðing ræni börn því frelsi sem þau þurfa til að þroskast og dafna sem kynverur á eigin forsendum.

„Mikilvægt er að vekja ekki skömm þeirra fyrir að vera kynverur með langanir og þrár. Hins vegar má sá sem viljandi meiðir aðra manneskju, niðurlægir hana og leggur hana í hættu svo sannarlega upplifa skömm. Sá sem fær fróun út úr því að beita eða horfa á aðra beitta ofbeldi á líka að skammast sín. Sá sem togar og teygir eða hreinlega virðir hvorki vilja né mörk annarra í kynlífi á virkilega að skammast sín og sá sem hefur lífsviðurværi af því að segja börnunum okkar að það sé nú bara allt í lagi að kyrkja hvert annað, sé það gert „rétt“ má líka skammast sín.“

„Að segja þeim hvað þau mega fíla og hvað ekki …
„Að segja þeim hvað þau mega fíla og hvað ekki er fáfræði og býr til óþarfa skömm,“ skrifar Sólborg Guðbrandsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólborg og Edda Falak standa með Siggu

Ungir aðgerðasinnar sem hafa verið áberandi í umræðunni um nauðgunarmenningu, kynheilbrigði og fleira að undanförnu hafa staðið upp og stutt Siggu Dögg í dag og í gær. Þar má til dæmis nefna Sólborgu Guðbrandsdóttur, rithöfund og fyrirlesara sem stóð fyrir fræðslusíðunni Fávitum á sínum tíma.

„Við komum ekki í veg fyrir að unglingar prófi sig áfram með alls konar kynlíf - en við getum hjálpað þeim að gera það á öruggan hátt með alhliða fræðslu. Að segja þeim hvað þau mega fíla og hvað ekki er fáfræði og býr til óþarfa skömm,“ skrifar Sólborg á Twitter.

Hlaðvarpsstjórnandinn Edda Falak setur sömuleiðis spurningarmerki við skrif Hönnu Bjargar og Maríu.

„Ég sé ekkert athugavert við það að ræða við unglinga um mörk þegar kemur að kyrkingum. Afhverju þessi forræðishyggja alltaf hreint?“ skrifar Edda á Twitter.

Sóley biður unga femínista um að hoppa ekki á „vagn einstaklingshyggju

Sóley Tómasdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi sem gjarnan lætur sig feminísk málefni varða, kemur Hönnu Björgu og Maríu til varnar og segist ekki trúa því að femínistar ætli raunverulega að deila um áhrif nauðgunarmenningar á samfélagið.

„Það er ekki af tepruskap sem femínistar gagnrýna klám. Af því að þeir vilji bara að fólk stundi kynlíf í trúboðsstellingu eftir giftingu. Það er af því að klámið er stór hluti félagsmótunar í samfélagi sem tekst ekki að uppræta ofbeldi gegn konum og jaðarsettu fólki,“ skrifar Sóley meðal annars, og jafnframt: „Elsku ungu femínistar. Ég bið ykkur um að hoppa ekki á vagn einstaklingshyggju í þessu máli. Þegar gömlu femmarnir skrifa harðorðar greinar eru þær ekkert að grínast. Þær eru að vera óþægilegar - eins og við vitum að skiptir máli.“

„Þegar gömlu femmarnir skrifa harðorðar greinar eru þær ekkert að …
„Þegar gömlu femmarnir skrifa harðorðar greinar eru þær ekkert að grínast,“ segir Sóley Tómasdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kynfræðsla snúist um val

Sigga Dögg segir í fyrrnefndu myndskeiði að kynfræðsla sé þakklátt starf þar sem hún reyni að gefa unglingum verkfæri til þess að taka með sér út í lífið.

„Til þess að þau fari með bakpokann sinn fullan af einhverjum góðum jákvæðum hugsunum, styrkjandi hugsunum, trú á sjálf sig, vellíðan í kroppnum og vellíðan með kynfærin sín til þess að þau geti tekið ákvarðanir sem þarf að taka í tengslum við kynlíf ef þau ætla að stunda það.“

Þá segir hún kynfræðslu snúast um „valið til þess að stunda kynlíf.“

Að lokum hvetur hún fólk til þess að halda áfram að „tala upp kynfræðsluna og tala vel um hana og styðja við hana.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert