Telja eftirlit við slátrun fullnægjandi

Í sláturhúsi.
Í sláturhúsi. mbl.is/RAX

Opinbert eftirlit á Íslandi með velferð dýra við slátrun er almennt fullnægjandi, að mati Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Í skýrslu sem ESA birti í dag segir að eftirlit Íslands tryggir að dýrum sé hlíft við hvers kyns sársauka, vanlíðan eða þjáningu sem hægt er að forðast við þessar aðgerðir.

„Skýrslan var birt í kjölfar úttektar sem framkvæmd var á Íslandi á tímabilinu 4. til 13. október 2021. Helsta niðurstaða hennar var sú að umbætur höfðu verið gerðar á framkvæmd eftirlits með velferð dýra við slátrun og Ísland tryggir nú betra samræmi við kröfur EES samningsins miðað við fyrri úttekt ESA sem framkvæmd var árið 2014.“

Í nýju skýrslunni eru sett fram nokkur tilmæli um það hvernig Ísland gæti styrkt eftirlit með slátrun dýra, þar á meðal:

  • Að tryggja áhættumiðaða áætlanagerð fyrir opinbert eftirlit með velferð dýra við slátrun;

  • Að framkvæma reglulega skoðun á eigin eftirlitskerfum fyrirtækja;

  • Að veita starfsfólki sem tekur þátt í opinberu eftirliti viðeigandi þjálfun og viðhalda hæfni starfsfólks;

  • Að setja ákvæði um velferð dýra við slátrun inn í innlendar eftirlitsáætlanir, og;

  • Að auka trúverðugleika hæfnisskírteina sem gefin eru út til starfsmanna rekstraraðila.

Ísland hefur þegar lagt fram áætlun um úrbætur til að bregðast við tilmælum ESA. Áætlun þessi fylgir skýrslunni.

EES reglur kveða á um miklar kröfur um matvæla- og fóðuröryggi og um heilbrigði og velferð dýra. ESA ber ábyrgð á því að fylgjast með því hvernig Ísland og Noregur innleiða reglur EES um matvælaöryggi, fóðuröryggi og heilbrigði og velferð dýra. ESA fer þar af leiðandi reglulega í eftirlitsferðir til Íslands og Noregs, en Liechtenstein er háð öðru eftirlitskerfi um matvælaöryggi.

mbl.is