Mörg grunnskólabörn vita ekki hvort aðgangur þeirra sé lokaður

Er þetta í fyrsta sinn sem Fjölmiðlanefnd, í samstarfi við …
Er þetta í fyrsta sinn sem Fjölmiðlanefnd, í samstarfi við Menntavísindastofnun, birtir niðurstöður slíkrar umfangsmikillar könnunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Næstum öll börn í grunnskóla og framhaldsskóla nota samfélagsmiðilinn Youtube og hátt hlutfall grunnskólabarna veit ekki hvort aðgangur þeirra sé opinn eða lokaður á samfélagsmiðlum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um tækjaeign og virkni á samfélagsmiðlum meðal grunn- og framhaldsskólanema á aldrinum 9-18 ára.

Skýrslan er fyrsti hluti af sjö og byggir á niðurstöðum könnunarinnar „Börn og netmiðlar“ sem Menntavísindastofnun framkvæmdi fyrir Fjölmiðlanefnd í 23 grunnskólum og 23 framhaldsskólum.

Er þetta í fyrsta sinn sem Fjölmiðlanefnd, í samstarfi við Menntavísindastofnun, birtir niðurstöður slíkrar umfangsmikillar könnunar. Fyrirhugað er að að gera sambærilega könnun á tveggja til þriggja ára fresti til að kanna miðlanotkun og færni barna og ungmenna þannig að hægt verði að bera saman niðurstöðurnar og hvernig notkun þróast.

Í yngsta aldurshópnum, 4.-7. bekk grunnskóla, er hlutfall þeirra þeirra sem eru með lokaðan aðgang hærra en þeirra sem eru með opinn aðgang, fyrir utan YouTube þar sem 36% voru með opinn aðgang en 26% lokaðan.

Þá er nokkuð hátt hlutfall í þessum aldurshópi sem veit ekki hvort aðgangurinn þeirra er opinn eða lokaður á Facebook,62%, Instagram, 45%, YouTube, 33%, og Snapchat, 30%.

Á unglingastigi, 8.‐10. bekk, eru fleiri þátttakendur með lokaðan aðgang en opinn á öllum uppgefnum samfélagsmiðlum. 

Þriðjungur séð eftir færslu á samfélagsmiðlum

Í framhaldsskóla eru tveir næstu vinsælustu miðlar Instagram, 90%, og Snapchat, 90%, en í grunnskóla eru næstu vinsælustu samfélagsmiðlarnir Snapchat, 72%, og TikTok, 69%.

Þriðjungur nemenda í 8.‐10. bekk hefur séð eftir einhverju sem þeir deildu á samfélagsmiðlum. Meðal framhaldskólanema er hlutfallið aðeins hærra, eða 41%.

Stelpur eru líklegri en strákar til að hafa séð eftir einhverju sem þær deildu á samfélagsmiðlum. Á unglingastigi grunnskóla er hlutfallið meðal stráka 28% en stelpna 38%. Í framhaldsskóla eru sambærilegar niðurstöður, 35% hjá strákum og 47% meðal stelpna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert