Ekki skylt að tilkynna um smit

„Ég held að við viljum flest láta vita ef barn …
„Ég held að við viljum flest láta vita ef barn er með Covid, til þess að passa upp á önnur börn, viðkvæma hópa og svo framvegis,“ segir Hjördís. mbl.is/Hari

Rakningateymi almannavarna lætur skólastjórnendur ekki vita af því þegar nemendur greinast smitaðir af kórónuveirunni. Þá er foreldrum ekki skylt að tilkynna skólum barnanna sinna ef börn þeirra smitast, þó þeim sé vitanlega skylt að tilkynna um veikindi.

Ákvörðun um að sleppa tilkynningum rakningarteymisins var tekin af vöktunarteymi um sóttvarnir í skólastarfi barna. Skólastjórnendur og almannavarnir eru á meðal þeirra sem sitja í teyminuÁsmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra fundar einnig reglulega með teyminu. 

Breyttar reglur um sóttkví sem tóku gildi í vikunni kveða á um að börn skuli einungis sæta sóttkví ef smit verður á heimili. Því þarf ekki að senda heilu bekkina eða leikskóladeildirnar í sóttkví þegar upp kemur smit í bekk eða á deild.

Framkvæmdin í hendur skóla og foreldra

„Ef það ætti að tilkynna um hvert einasta barn sem fær Covid þá myndi það mögulega verða til þess að skólinn myndi ekki gera neitt annað en að taka við slíkum símtölum,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

Hún ítrekar að ákvörðunin hafi verið tekin af vöktunarteymi eftir nokkurra daga samtal um það hvernig ætti að útfæra þetta. Hjördís segir að vonir standi til þess að fólk sýni almenna skynsemi í þessum efnum, þ.e. tilkynni skólum barna sinna um smit þegar þau koma upp.

„Framkvæmdin er því meira í höndum foreldranna og skólanna,“ segir Hjördís.

Útlit er fyrir að aðgerðum í samfélaginu verði aflétt í skrefum á næstunni.

„Enginn veit hvað verður á næstu vikum en miðað við það sem talið er að geti orðið þá gæti orðið mikið um smit og þá er spurning hvernig það virkar í praktík að vera alltaf að upplýsa foreldra og um smit,“ segir Hjördís.

Almannavarnir enn á tánum

Hún segist skilja það ef fólki líði illa með það að vera ekki fullkomlega meðvitað um það þegar smit greinast í nærumhverfi barna þeirra.

„Við vitum alveg af áhyggjufullum kennurum og foreldrum sem finnst þetta óþægilegt og það er skiljanlegt,“ segir Hjördís.

Hún tekur fram að þó vonast sé til þess að fólk sýni almenna skynsemi í þessum efnum séu almannavarnir enn á tánum hvað síbreytilegan faraldurinn varðar og enn sé til rakningarteymi.

mbl.is