Getum ekki verið eins og kálfar að vori

Víðir Reynisson á blaðamannafundi í hádeginu.
Víðir Reynisson á blaðamannafundi í hádeginu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við reiknum með því að næstu vikur verði strembnar þannig að við þurfum að passa okkur að vera ekki eins og kálfar að vori,“ sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn almannavarna eftir að greint var frá því að sóttvarnaaðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins verður aflétt á sex til átta vikum.

Fyrsta skrefið verður tekið á miðnætti þegar fjölda­tak­mark­an­ir verða færðar úr 10 í 50.

„Við þurfum að fara gætilega og þetta eru skynsamleg skref sem búið er að setja fram,“ segir Víðir en eins og staðan er núna er stefnt að því að öll­um sótt­varnaaðgerðum inn­an­lands verði aflétt þann 14. mars næst­kom­andi.

Víðir gerir ráð fyrir því að næstu vikur verði álag á ýmsum vinnustöðum en vonast til þess að fáir veikist alvarlega vegna veirunnar. Hann segir stefnt að því að aflétta neyðarstigi almannavarna eftir helgi og segir lögreglu og almannavarnir viðbúin því að færa þurfi starfsfólk út á land ef faraldurinn færist í vöxt í smærri sveitarfélögum.

Víðir segir að búast megi við því að verklagið hjá smitrakningateyminu breytist mjög á næstunni en eftir að nýjar reglur um sóttkví tóku gildi í vikunni er fólk eingöngu sent í sóttkví ef heimilisfólk smitast.

„Núna erum við fyrst og fremst að skrá heimilisfólk í sóttkví og þá gerist það að mörgu leyti sjálfvirkt. Við erum með í dag 100 starfsmenn sem sinna smitrakningu á vöktum og við eigum frekar von á því að geta dregið úr því eitthvað í næstu viku og þá líka fært fólk til í önnur verkefni.“

mbl.is