„Hefðu kannski þurft að vera með grímur“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir kveðst ekki vita hvort reglur hafi verið brotnar á þriðjudagskvöld, þegar Íslensku bókmenntaverðlaunin voru afhent á Bessastöðum.

Fjöldi gesta í salnum var vel yfir því sem samkomutakmarkanir leyfa. Þá bar enginn þeirra grímu fyrir vitum sér, eins og lög kveða á um.

„Samkvæmt reglugerðinni hefðu menn kannski þurft að vera með grímur. En undanþágur frá reglugerðinni fást frá heilbrigðisráðuneytinu, þannig ég veit svo sem ekkert meira um þetta mál,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.

Gestir í salnum á Bessastöðum báru ekki andlitsgrímur.
Gestir í salnum á Bessastöðum báru ekki andlitsgrímur. Skjáskot/Ríkisútvarpið

Erfitt að fá svör

Erfiðlega hef­ur gengið að fá svör við spurn­ing­um mbl.is og Morgunblaðsins um það sem virðast vera augljós brot á gildandi lögum í forsetabústaðnum að Bessastöðum.

Fram­kvæmda­stjóri Fé­lags ís­lenskra bóka­út­gef­enda kvaðst aðspurður hafa fengið þær upp­lýs­ing­ar frá Ríkisútvarpinu, að til staðar væri und­anþága frá al­menn­um sótt­varn­a­regl­um vegna út­send­inga frá at­höfn­um á borð við þessa.

Sif Gunn­ars­dótt­ir for­seta­rit­ari ræddi við mbl.is strax að lokinni athöfninni á þriðjudagskvöld.

„Rúv, í svona upp­töku, er með und­anþágu þannig að við sát­um þarna með öll­um, öllu tækni­fólki og starfs­fólki, og það voru und­ir 40 manns,“ sagði hún þá.

Bene­dikt Kristjáns­son, fram­kvæmda­stjóri Fé­lags ís­lenskra bóka­út­gef­enda, tjáði mbl.is sömuleiðis á miðvikudag að þau svör hefðu fengist frá Ríkisútvarpinu, að það hefði leyfi fyrir 40 manns við svona athafnir.

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri.
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri. mbl.is/Sigurður Bogi

Ríkisútvarpið sótt um almenna undanþágu

Stefán Ei­ríks­son útvarpsstjóri sagði í Morg­un­blaðinu í gær að Ríkisútvarpið væri með sömu und­anþágu og sviðslist­ir almennt. Um þær hafa gilt 50 manna samkomutakmarkanir þar sem grímuskylda er áskilin.

Grímuskylda sem virt var að vettugi í útsendingu sjónvarps á þriðjudag, eins og áður sagði.

Stefán sagði aðspurður að ekki hefði verið sótt um sér­staka und­anþágu fyr­ir þenn­an eina viðburð. Áður hafi þó verið sótt um al­menna und­anþágu fyr­ir starf­semi stofnunarinnar, til þess að geta sent út viðburði.

Almennar undanþágur ekki gefnar

Sóttvarnalæknir segir aftur á móti að almennar undanþágur frá reglugerð séu ekki gefnar. 

Fyrirtæki, stofnanir eða annars konar starfsemi þurfi að sækja aftur um undanþágu þegar ný reglugerð komi fram.

„Undanþágurnar, eftir því sem ég veit best, falla út þegar ný reglugerð kemur,“ segir Þórólfur.

„Ég kannast ekki við það að það hafi verið gefið sérstakt álit frá okkur á þetta. En auðvitað eru margar undanþágubeiðnir sem berast og ekkert endilega víst að ég hafi séð það, en það er heilbrigðisráðuneytið sem þarf að svara því.“

Þetta sama ráðuneyti hefur enn ekki svarað fyrirspurn mbl.is frá því á miðvikudag. Í henni er krafist upplýsinga um það hvernig þeirri undanþágu ríkismiðilsins, sem hann ber fyrir sig, sé háttað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert