Jóhannes dæmdur sekur í annað sinn

Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness í Hafnarfirði eftir …
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness í Hafnarfirði eftir hádegi í dag. mbl.is/Þorsteinn

Jó­hann­es Tryggvi Svein­björns­son var nú eftir hádegi fundinn sekur í Héraðsdómi Reykjaness af ákæru um að hafa nauðgað konu á nuddstofu sinni árið 2012. Þetta er annar dómurinn sem Jóhannes hlýtur vegna brota sem þessara, en áður hafði hann hlotið sex ára dóm á síðasta ári. Var Jóhannesi dæmdur hegningarauka upp á 12 mánuði í þetta skiptið og er er heildardómur hans í báðum málunum því orðinn sjö ár.

Lögmaður Jóhannesar lét vita af því við dómsuppsögu að málinu yrði áfrýjað til Landsréttar með það fyrir augum að fá dómnum hnekkt.

Var Jóhannes sakaður um að hafa tvisvar í janúar árið 2012 haft önn­ur kyn­ferðismök en sam­ræði við kon­u með því að hafa káfað á kyn­fær­um henn­ar, rassi og brjósti og sett fing­ur í leggöng henn­ar, henni að óvör­um.

Athygli vakti fyrr í mánuðinum þegar þinghald í málinu var haldið fyrir opnum tjöldum þar sem fjölmiðlar gátu fylgst með, en almennt eru kynferðisbrotamál lokuð. Jóhannes mætti ekki fyrir dóminn þegar aðalmeðferð fór fram, en þar sem hann var í sóttkví fékk hann að gefa skýrslu í gegnum fjarfundarbúnað. Hann vildi ekki tjá sig um sakargiftir þegar skýrslutakan fór fram umfram það sem hann hafði sagt í skýrslutökum lögreglu. Neitaði hann þar sök og kvaðst hvorki hafa komið við brjóst eða kyn­færi konunnar á óviðeig­andi hátt. Tók skýrslutakan því stuttan tíma fyrir dómi, en Jóhannes fylgdist eftir það með aðalmeðferðinni í gegnum fjarfundabúnað.

Konan er ein ellefu sem kærði Jóhannes til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir fjórum árum síðan. Eftir rannsóknina ákvað embætti héraðssaksóknara að gefa ekki út ákæru en konan bar þá ákvörðun undir ríkissaksóknara. Var lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í kjölfarið falið að rannsaka málið á ný og ákvað héraðssaksóknari eftir það að gefa út ákæru í málinu.

Þetta er annað málið sem héraðssaksóknari höfðaði gegn Jóhannesi, en í báðum málunum var um sambærilegar ákærur að ræða. Í janúar í fyrra var hann dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að hafa nauðgað fjórum konum á meðferðastofu sinni á tímabilinu 2009 til 2015. Lands­rétt­ur þyngdi síðan þann dóm í sex ár í nóv­em­ber. Konurnar sem kærðu Jóhannes höfðu flestar leitað til hans vegna stoðkerfisvandamála og voru lýsingar þeirra flestra að hann hefði við meðferðina snert kynfæri þeirra og farið með fingur inn í leggöng eða endaþarm þeirra.

mbl.is