Kynna hvernig aðgerðum verður aflétt

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra ræðir við blaðamann mbl.is í Ráðherrabústaðnum.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra ræðir við blaðamann mbl.is í Ráðherrabústaðnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkisstjórnin fundar í dag og ætlar í kjölfarið að kynna afléttingaáætlun vegna samkomutakmarkana. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagði á Alþingi í gær að áætlunin verði að öllum líkindum varfærin.

Blaðamannafundur vegna afléttinga verður haldinn í Safnahúsinu klukkan 11:30 í dag.

Metfjöldi kórónuveirusmita greindist innanlands í gær en þau voru 1.567 talsins.

Willum sagði ekki í hverju áætl­un­in fæl­ist en sagði að stjórn­völd stæðu alltaf með heil­brigðis­kerf­inu og spít­al­an­um og fara þyrfti með gát.

Fáir þurfi að leggjast inn en staðan samt vandasöm

Ástæða um­mæl­anna var sér­stök umræða um sótt­varn­ir og tak­mark­an­ir á dag­legt líf í bólu­settu sam­fé­lagi en Sig­mar Guðmunds­son, þingmaður Viðreisn­ar, var máls­hefj­andi.

Sig­mar sagði að þrátt fyr­ir mik­inn fjölda smita væri staðan á spít­al­an­um góð og fáir þyrftu að leggj­ast þar inn vegna veirunn­ar. Við slík­ar aðstæður væri al­gjör­lega óviðun­andi að viðhafa jafn strangar sam­komutak­markanir og eru í gildi núna.

33 lágu á Landspítala í gær af ástæðum sem tengjast Covid-19. Þar af voru 23 í einangrun með virkt smit og 10 í bataferli. Í fyrradag lögðust þrír inn og sjö voru útskrifaðir. Allir hinna þriggja sem er á gjörgæslu eru lausir úr einangrun. 

Nú þegar hefur verulega verið létt á sóttkví þeirra sem berskjaldaðir eru fyrir kórónuveirusmiti. Þeir sem berskjaldaðir eru fyr­ir smit­um utan heim­il­is þurfa ein­göngu að fara í smit­gát og börn og ung­ling­ar eru al­gjör­lega und­anþegin regl­um um smit­gát. Landspítali hefur sagt að þetta verði honum mikil áskorun og að spítalanum sé „vandi á hönd­um að verja inniliggj­andi sjúk­linga fyr­ir smiti“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert