Segir augljóst að framleiða þurfi meiri orku

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Augljóst er í huga Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, utanríkisráðherra og fyrrverandi iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, að framleiða þurfi meiri raforku hér á landi. Þetta kemur fram í svari Þórdísar við skriflegri fyrirspurn mbl.is.

Í ljósi þess að Þórdís fór áður fyrir ráðuneyti iðnaðar var spurt:

  1. Voru einhverjar sérstakar aðgerðir í ráðuneytinu sl. 4 ár til að takast á við mögulega raforkuskerðingu? 
  2. Var þetta eitthvað sem stefndi í, eða kemur þessi staða núna á óvart? 
  3. Telurðu að gert hafi verið nóg í ráðherratíð þinni til að koma í veg fyrir stöðuna sem er núna uppi?

„Þegar samið er um kaup á skerðanlegri orku liggur fyrir að orkan er skerðanleg, samkvæmt samningi sem menn gera sín á milli. Ef aðilar væru að kaupa forgangsorku væri þessi vandi ekki til staðar,“ skrifar Þórdís.

„Fyrir forgangsorku greiða aðilar hins vegar hærra verð. Það hefur því verið eftirspurn eftir skerðanlegri orku en eðli máls samkvæmt engin eftirspurn eftir því að hún sé síðan skert. Það gerist sem betur fer mjög sjaldan. En nú er slæmt vatnsár, ofan í aukna eftirspurn eftir orku og þá er boðuð skerðing á skerðanlegri orku.“

Óhagkvæmni í umframgetu

Ytri þættir hafi þannig áhrif nú, segir hún og bendir á hátt afurðaverð, mikinn áhuga á uppbyggingu gagnavera og svo orkuskipti, en þá eru hraðhleðslustöðvar teknar sem dæmi.

Ekki megi rugla saman umræðu um skerðanlega raforku við umræðu um orkuþörf framtíðar vegna orkuskipta, nýrra tækifæra í verðmætasköpun tengda orku og fleira.

„Það er augljóst í mínum huga að framleiða þarf meiri raforku í landinu.“

Þórdís bendir á að þegar afköst eru sveiflukennd, eins og í tilviki vatnsafls, sé óhagkvæmni falin í því að halda uppi umframgetu til að koma í veg fyrir skerðingu.

„Markaðurinn þarf þá að borga fyrir það,“ skrifar Þórdís.

Álver Rio Tinto í Straumsvík. Nærri 80% af raforkuframleiðslu Íslands …
Álver Rio Tinto í Straumsvík. Nærri 80% af raforkuframleiðslu Íslands undanfarin ár hafa runnið til stóriðju. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kveðið á um raforkuöryggi

„Í ráðherratíð minni var unnin orkustefna fyrir Ísland með stuðningi allra flokka en slík stefna hefur aldrei áður verið sett. Eitt af markmiðum hennar er að orkuþörf samfélagsins sé uppfyllt. Í kjölfarið, sl. sumar, var samþykkt frumvarp mitt um veigamiklar breytingar á raforkulögum, þar sem kveðið er á um raforkuöryggi og mikilvægi þess að uppfylla raforkuþörf samfélagsins, en slíkt ákvæði hafði ekki áður verið í lögunum og því var um að ræða tímamót í rökréttu framhaldi af nýju orkustefnunni,“ segir í svari Þórdísar.

„Með nýju lögunum breyttust líka forsendur fyrir tekjumörkum Landsnets, sem mun stuðla að lægra raforkuverði, og stórnotendur fengu heimild til að nýta og selja orku úr glatvarma, sem mun stuðla að aukinni raforkuframleiðslu.

Þingsályktun um uppbyggingu flutningskerfis raforku var samþykkt þar sem áherslur Alþingis birtast og Landsnet fer eftir þeim áherslum í sinni kerfisáætlun. Staðan er hins vegar sú að Landsnet hefur ekki komist í nauðsynlegar framkvæmdir enda er kerfið alltof torvelt, flókið og þungt. Erfiðlega hefur gengið að ná sátt um hvaða breytingar ráðast þurfi í til að einfalda þau ferli.“

Rammaáætlun ekki afgreidd frá árinu 2013

Varðandi virkjanaframkvæmdir þurfi að svara því skýrt hvaða regluverk eigi að gilda um vindorkuuppbyggingu hér á landi.

„Þáverandi umhverfisráðherra lagði fram frumvarp þess efnis á síðasta þingi kjörtímabilsins eftir langa vinnu en málið var ekki afgreitt á Alþingi.

Rammaáætlun hefur ekki verið afgreidd frá árinu 2013 sem hefur neikvæð áhrif á stöðu mála. Þó skal tekið fram að í þeirri rammaáætlun sem þá var samþykkt eru virkjanakostir í nýtingarflokki sem ráðast mætti í en slíkar ákvarðanir eru teknar af orkufyrirtækjunum á viðskiptalegum forsendum.

Nú er málaflokkurinn kominn á einn stað sem er í mínum huga mjög til bóta og ég bind vonir við að það hjálpi okkur að stilla saman strengi og stilla af regluverk til að ná fram þegar settum markmiðum okkar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert