Skýrt að gestir áttu að bera grímur

Gestir í salnum á Bessastöðum báru ekki andlitsgrímur eins og …
Gestir í salnum á Bessastöðum báru ekki andlitsgrímur eins og reglur kveða á um. Skjáskot/Ruv.is

„Við sjáum um það sem snýr að okkur og okkar framkvæmd hjá Ríkisútvarpinu. Það á allt að vera í samræmi við ströngustu reglur og við í rauninni göngum oftar en ekki lengra bara til þess að tryggja öryggi í okkar starfsemi,“ segir Stefán Eiríksson útvarpsstjóri.

Erfiðlega hefur gengið að fá svör við spurningum um afhendingu Íslensku bókmenntaverðlaunanna á Bessastöðum á þriðjudagskvöld. Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu og á mbl.is var fjöldi gesta í salnum vel yfir því sem samkomutakmarkanir leyfa og gestir báru ekki grímur meðan á afhendingu verðlaunanna stóð líkt og sjá mátti í beinni útsendingu Ríkisútvarpsins. 

Fram­kvæmda­stjóri Fé­lags ís­lenskra bóka­út­gef­enda sagðist hafa fengið þær upp­lýs­ing­ar frá RÚV að til staðar væri und­anþága frá al­menn­um sótt­varn­a­regl­um vegna út­send­inga frá at­höfn­um á borð við af­hend­ingu Íslensku bók­mennta­verðlaun­anna. Stefán Eiríksson sagði í  Morgunblaðinu á fimmtudag að RÚV væri með sömu undanþágu og sviðslistir og að ekki hafi verið sótt um sérstaka undanþágu fyrir þennan eina viðburð. Áður hafi verið sótt um almenna undanþágu fyrir starfsemi RÚV til þess að geta sent út viðburði. Morgunblaðið og mbl.is hafa ítrekað reynt að fá útskýringar á umræddri undanþágu hjá heilbrigðisráðuneytinu en engin svör hafa fengist þaðan í vikunni. 

Verðlaunahafarnir voru kampakátir.
Verðlaunahafarnir voru kampakátir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þær upplýsingar fengust frá almannavörnum í gær að samkvæmt gildandi takmörkunum eigi allir gestir að nota andlitsgrímu á atburðum sem þessum. Stefán segir aðspurður að allt starfsfólk RÚV á Bessastöðum hafi verið með grímu. „Það sem að ég get bara sagt er hvernig reglurnar eru og hvaða reglur gilda um okkar starfsemi og um framleiðslu á efni í sjónvarpi, þá gilda þessar reglur í reglugerðinni um sviðslistirnar,“ segir hann. 

Almennt í leikhúsi þá þurfa gestir að vera með grímurnar allan tímann…

„Já, Bessastaðir eru nú ekki leikhús.“ 

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri.
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri.

Er það ekki brot á sóttvarnalögum þegar gestir eru ekki með grímur?

„Ég get ekki alveg sagt til um það. þetta á að vera alveg innan þess ramma sem að reglurnar setja,“ segir útvarpsstjóri og bætir við að framkvæmd verðlaunaafhendingarinnar hafi verið á höndum Félags íslenskra bókaútgefenda. „Ég geri engar athugasemdir við útskýringar framkvæmdastjóra félagsins sem stendur fyrir þessum viðburði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert