Þjáðist einnig af alvarlegum undirliggjandi vanda

Frá Landspítala.
Frá Landspítala. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

Konan sem smituð var af kórónuveirunni og lést á smitsjúkdómadeild Landspítala í fyrradag var bæði með Covid-19 og alvarleg undirliggjandi heilsufarsvandamál. Konan var á níræðisaldri. 

Þetta kemur fram á vef Landspítala en þegar andlátið var tilkynnt í gær sagði á vef spítalans að konan hefði látist af völdum Covid-19.

Í gær lágu 33 á spítala vegna ástæðna sem tengjast Covid-19. 23 voru í einangrun með virkt smit en 10 í bataferli.

Þrír voru á gjörgæslu og voru þeir allir lausir úr einangrun. Tveir þeirra voru í öndunarvél og annar þeirra einnig í ECMO sem er hjarta- og lungnavél. 

Í gær voru 219 starfsmenn spítalans fjarverandi vegna eingrunar en í fyrradag greindust 22 og álíka stór hópur losnaði úr einangrun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert