„Unglingar hafa alls konar langanir“

Indíana Rós Ægisdóttir (t.v.) er formaður Kynís. Til hægri eru …
Indíana Rós Ægisdóttir (t.v.) er formaður Kynís. Til hægri eru (talið að ofan) Hanna Björg og Sigga Dögg. Samsett mynd

Kynís, kynfræðingafélag Íslands, sendi frá sér yfirlýsingu í gærkvöldi í kjölfar umræðu um fræðslu um svokallaðar kyrkingar í kynlífi. Hanna Björg Vilhjálmsdóttir kynjafræðikennari hefur á síðustu dögum gagnrýnt slíka fræðslu Sigríðar Daggar Arnardóttur kynfræðings harðlega og sagt að hún sé að „normalísera ofbeldishegðun.“

Sigríður, sem betur er þekkt sem Sigga Dögg, hefur aftur á móti sagt að mikilvægt sé að svara spurningum unglinga um kynlíf, sama hverjar þær séu. 

Kynís tekur undir það. 

„Góð kynfræðsla felur í sér að mæta unglingum þar sem þau eru og vera heiðarleg í samskiptum. Ef okkur sem kynfræðurum finnst óþægilegt að svara spurningunum unglinga þá þurfum við fyrst og fremst að skoða okkar eigin fordóma og fyrirfram gefnu hugmyndir, en ekki koma skömminni á þau.“

Staðreyndin sú að unglingar horfa á klám

Kynís bendir á að það sé á hreinu að unglingar horfi á klám og noti það á fjölbreyttan hátt. Þá sýni rannsóknir að sumir unglingar noti klám til þess að fræðast um kynlíf.

„Þess vegna er mikilvægt að spjalla um klám í kynfræðslu og kenna unglingum klámlæsi (e. porn literacy), sem meðal annars felst í því að eiga heiðarlegt samtal um að klám endurspegli ekki raunveruleikann,“ segir í yfirlýsingu Kynís.

„Unglingar hafa alls konar langanir sem spretta frá alls konar lífsreynslu. Kannski vaknar einhver forvitni við að horfa á klám og er því mikilvægt í kynfræðslu að búa ekki til skömm, heldur frekar fræða af virðingu og opnum hug.“

Þá segir í yfirlýsingunni að öll fræðsla miði að því að koma í veg fyrir slæmar afleiðingar og efla einstaklinginn í að eiga ánægjulega reynslu.

mbl.is