Opna leikhúsið að nýju glöð í bragði

Frá æfingu á sýningunni Framúrskarandi vinkona.
Frá æfingu á sýningunni Framúrskarandi vinkona. Ljósmynd/Þjóðleikhúsið

Sýningar hefjast að nýju í Þjóðleikhúsinu í komandi viku eftir að takmarkanir vegna Ómíkron-afbrigðis kórónuveirunnar settu strik í starf leikhússins skömmu fyrir jól. Magnús Geir Þórðarson Þjóðleikhússtjóri segir starfsfólk Þjóðleikhússins hlakka óskaplega til að taka á móti gestum á nýjan leik um næstu helgi, en viðurkennir að það hafi verið vonbrigði að áframhaldandi eins-metra regla verði áfram í gildi

„Við erum afskaplega ánægð með að við séum að fara af stað á nýjan leik nú í vikunni en það eru tvær rómaðar sýningar sem opna leikhúsið á ný. Við byrjum strax næstu helgi með Vertu Úlfur og Ástu á stóra sviðinu og svo byrjar Kardimommubæinn fljótlega.  Svo gerum við ráð fyrir að hefja sýningar á nokkrum nýjum verkum sem hafa verið lengi í undirbúningi í mars. Við bíðum í ofvæni eftir að geta frumsýnt Framúrskarandi vinkona sem er stórsýning sem við erum búin að vera að vinna að lengi og eins er mikil tilhlökkun að frumsýna glænýtt íslenskt verk, Sjö ævintýri um skömm,“ segir Magnús og samtali við mbl.is. 

„Leikhúsið er sannarlega opið aftur – og fyrir það erum við þakklát. Við finnum fyrir mikilli eftirvæntingu leikhúsgesta og starfsmanna. Hins vegar voru það ákveðin vonbrigði að reglunni um að sæti þurfi að vera á milli ótengdra aðila hafi ekki verið aflétt nú en við vonum sannarlega að henni verði aflétt fljótlega. Það er samtal sem við eigum í við stjórnvöld þessa dagana. Við teljum að flest rök mæli með því enda hefur sýnt sig að starfsemi leikhúsanna hefur verið með einstaklega ábyrgum hætti og engin smit hafa komið upp í leikhúsunum alla þá 22 mánuði sem faraldurinn hefur geysað.“

Stjórnvöld gera ráð fyrir því að öllum takmörkunum vegna kórónuveirunnar verði aflétt fyrir 14. mars næstkomandi. Magnús segir að starf leikhússins eigi eftir að aukast í takt við afléttingar næstu vikur. 

„Við förum af stað núna og verðum komin í heilmikla keyrslu strax eftir viku. Allan faraldurinn höfum við kappkostað að halda áfram og vera reiðubúin til að taka á móti gestum um leið og færi gefst. Við viljum taka á móti áhorfendum okkar með opinn faðm, kraftmiklar sýningar sem gleðja og veita andlega næringu. Því opnum við nú glöð í bragði þó enn séu takmarkanir. Svo mun þetta trappast upp á næstu vikum. Kardemommubærinn mun aftur heilla unga sem aldna þegar líður á febrúar en þúsundir miðaeigenda bíða í ofvæni eftir að fá að koma og njóta þessarar dásamlegu sýningar. Í mars munum við svo loks geta frumsýnt nýju sýningarnar sem við höfum verið að undirbúa og æfa undanfarna mánuði. Þá verður sannarlega kátt á hjalla.“

Markmiðið að geta tekið á móti gestum 

Magnús segir að Þjóðleikhúsið hafi þurft að bregðast við allskonar aðstæðum síðustu tuttugu mánuði kórónuveirufaraldursins. Það hafi alltaf verið markmið leikhússins að geta tekið á móti gestum, sama hvernig það hefur litið út á hverjum tíma fyrir sig. 

Á síðustu 22 mánuðum höfum við sífellt þurft að bregðast við breytilegum aðstæðum, á stundum hefur sýningarhald verið alveg bannað, stundum höfum við sýnt með miklum takmörkunum og stundum hafa takmarkanir verið í lágmarki. Þrátt fyrir þetta þá höfum við náð að frumsýna þónokkrar stórglæsilegar sýningar sem hafa hrifið gesti okkar. Jafnframt höfum við sett af stað fjölmörg samfélagsleg verkefni til að gleðja ólíka hópa í landinu meðan á faraldrinum stóð. , t.d. með skemmtunum fyrir börnin við bólusetningar og heimsóknir á dvalarheimili þegar heimsóknir voru bannaðar. Nú opnast fyrir sýningar á ný og fyrir það erum við þakklát – og vonandi verður meters-reglan aftengd fljótlega,“ segir Magnús. 

Þrátt fyrir skugga faraldursins var mikill aðsókn í Þjóðleikhúsið síðasta haust og miðasala gekk vonum framar. 

Í hvert skipti sem opnast hefur fyrir sýningarhald, þá hafa gestir streymt í leikhúsið og til dæmis var gríðarleg aðsókn í leikhúsið nú í haust og ljóst að þjóðin er leikhúsþyrst,“ segir Magnús og bætir við;

„Það var fullt hús hjá okkur svona framundir jól þegar Ómíkron-bylgjan fór á flug og þá náttúrulega stöðvaðist allt hjá okkur. Við höfum haldið áfram að æfa en verið að missa fólk frá æfingum síðustu vikur. En með ótrúlegri þrautsegju og metnaði starfsfólks hefur okkur tekist að halda æfingum áfram og því erum við vel í stakk búin nú þegar leikhúsið opnast. Leikhúsgestir eiga því von á mikilli leikhúsveislu á næstu mánuðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert