Flestir ökumenn náðu að redda sér sjálfir

Búið er að opna Hellisheiði.
Búið er að opna Hellisheiði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að ökumenn flestra bíla sem fastir voru á Hellisheiði fyrr í dag vegna veðurs hafi náð að redda sér sjálfir af heiðinni. Því hafi útkallið verið umfangsminna en það hafði litið út fyrir að vera.

Búið er að opna veginn um Hellisheiði en í tilkynningu frá Vegagerðinni eru vegfarendur hvattir til að aka með gát.

„Rétt fyrir fjögur þá voru þessir hópar sem fóru úr Reykjavík búnir að keyra hellisheiðina og Þrengslin og það var nú eitthvað óvenjulítið um að vera,“ segir Davíð í samtali við mbl.is.

„Það voru einhverjir bílar sem höfðu verið fastir en voru búnir að ná að redda sér sjálfir. Þannig að þeir voru komnir niður af heiðinni rúmlega fjögur og héldu til baka til Reykjavíkur.“

Hann segist hafa fengið óstaðfesta tölu frá lögreglunni um að fastir bílar hefðu verið um ellefu talsins.

Aðstoða ökumann á Norðvesturlandi

Björgunarsveitin á Hvammstanga var kölluð út fyrir skömmu til að aðstoða ökumann sem var með fastan bíl við Hvítserk á Norðvesturlandi. Davíð segir björgunarsveitina enn vera að sinna því útkalli.

Fyrir hádegi hafði borist útkall um þak sem væri að fjúka af skemmu við bóndabæ á Suðurlandi. Að sögn Davíðs var verkefnið fljótt leyst og varð ekkert tjón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert