Mikill meirihluti hlynntur bólusetningu barna

75% eru mjög eða fremur hlynntir bólusetningum barna á aldrinum …
75% eru mjög eða fremur hlynntir bólusetningum barna á aldrinum fimm til ellefu ára. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hátt í 75% landsmanna eru fremur eða mjög hlynntir því að bólusetja börn við Covid-19 sjúkdómnum ef marka má niðurstöður Maskínukönnunar sem var lögð fyrir dagana 6. til 17. janúar.

Alls svöruðu 902 einstaklingar könnuninni en úrtakið var valið af handahófi úr Þjóðskrá.

Um 11% svarenda sögðust fremur- eða mjög andvíg því að bólusetja þennan aldurshóp við Covid-19 en 14,5% voru „í meðallagi“ hlynnt eða andvíg því.

Skjáskot/Maskina

Yngri mótfallnari bólusetningum

Þeir sem eldri eru virðast hlynntari bólusetningum barna samkvæmt könnuninni en í hópnum 60 ára og eldri voru alls 61% mjög hlynnt bólusetningunum og 24,9% fremur hlynnt.

Í hópi þátttakenda á aldrinum 18 til 29 ára voru aftur á móti 40,6% mjög hlynnt bólusetningum og 21,1% fremur hlynnt. 13% voru fremur andvígir og 5% mjög andvígir.

Þá virðast flestir þeir sem eru mjög andvígir bólusetningum vera á aldrinum 30 til 39 ára en meðal þess hóps voru 10,6% mjög andvígir en 3,1% fremur andvígir.

Fleiri hlynntir með háskólapróf

Ef litið er til menntunarstigs þátttakenda í könnuninni voru flestir hlynntir bólusetningum barna með háskólapróf (framhaldsnám), en meðal þeirra voru 54% mjög hlynntir og 25,9% fremur hlynntir. Einungis 6,4% voru fremur eða mjög andvígir.

Í hópi þeirra sem voru eingöngu með grunnskólapróf voru 47,6% mjög hlynntir bólusetningum, 26,9% fremur hlynntir en 8,8% fremur- eða mjög andvígir. 

Skjáskot/Maskina



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert