Þóra Kristín býður sig fram í formennsku SÁÁ

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir hefur boðið sig fram til formennsku SÁÁ.
Þóra Kristín Ásgeirsdóttir hefur boðið sig fram til formennsku SÁÁ. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar, hefur ákveðið að bjóða sig fram til formennsku í SÁÁ. Boðað verður til aðalfundar á næstunni í kjölfar þess að Einar Hermannsson sagði af sér sem formaður, en nýlega var upplýst að hann hefði keypt vændi af skjólstæðingi samtakanna.

Í tilkynningu á Facebook-síðu sinni segir Þóra að hún hafi ákveðið að bjóða sig fram eftir að hafa fengið áskorun frá fjölmörgum innan samtakanna. Þannig hafði meðal annars hópur 20 kvenna og 20 karla lýst yfir stuðningi við framboð hennar.

Segist hún bjóða sig fram í því ljósi að breyta til innan samtakanna hljóti hún kjör. „Það geri ég í trausti þess að ég fái stuðning til að hrinda í framkvæmd tímabærum breytingum á starfseminni sem ekki er hægt að skorast undan lengur í ljósi síðustu atburða.“

Segir Þóra jafnframt að samtök sem þessi verði alltaf að taka stöðu með þolendum ofbeldis þó það geti verið flókið. „Þetta er flókið viðfangsefni vegna þess að við erum öll saman í þessu, karlar, konur og ungmenni, bæði gerendur og þolendur ofbeldisbrota. Eitruð karlmennska og harka er fylgifiskur harðrar neyslu og þótt fólk komi úr allskonar aðstæðum höfum við flest verið föst inni í vítahring og útsett fyrir margskonar ofbeldi og sárindum. Konur hafa oft veikari félagslega stöðu og minni líkamsburði til að verja sig.“

Segir Þóra að brýnt sé að setja saman sannleiksnefnd til að taka á ofbeldis- og áreitnismálum innan vébanda samtakanna í fortíð og framtíð. „Nýkjörin stjórn þarf að setja sér siðareglur til að tryggja að það hafi sjálfkrafa í för með sér brottvísun úr öllum trúnaðarstöðum ef fólk innan samtakanna verður uppvíst að því að brjóta á veiku fólki eða misnota aðstöðu sína,“ segir Þóra.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert