Aftur reynt að opna fyrir Uber og Lyft

Frumvarpið hefur ekki náð fram að ganga síðan í nóvember …
Frumvarpið hefur ekki náð fram að ganga síðan í nóvember 2019. mbl.is/Kristinn Magnússon

Innviðaráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í dag frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur, meðal annars til þess að tryggja að íslenska ríkið standi við skuldbindingar EES-samningsins.

Verður frumvarpið nú lagt fyrir þingflokka.

ESA, eftirlitsstofnun EFTA, hefur áminnt Ísland ítrekað vegna gildandi leigubifreiðalöggjafar en markmið frumvarpsins er að tryggja gott aðgengi að hagkvæmri, skilvirkri og öruggri leigubifreiðaþjónustu.

Málið fram og til baka frá nóvember 2019

Sigurður Ingi lagði frumvarpið fram nóvember 2019, og átti það að opna á farveitur á borð við Uber og Lyft. Vakti það nokkra gagnrýni leigubílafyrirtækisins Hreyfils og náði málið ekki fram að ganga.

Í hinu endurflutta frumvarpi verða áfram í gildi ströng skilyrði sem farveitur og bílstjórar þyrftu að uppfylla og í sumum tilvikum eru gerðar strangari kröfur en samkvæmt gildandi lögum, að sögn Þórmundar Jónatanssonar, upplýsingafulltrúa innviðaráðuneytisins, í svari við fyrirspurn mbl.is.

Leigubifreiðastjórum verður þó áfram heimilt að hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð kjósi þeir það. 

Umsagnir hafðar til hliðsjónar í þetta skiptið

Farveitur sem svipa til erlendu farveitnanna Lyft og Uber hafa verið að skjóta uppi kollinum á Íslandi, en þar má nefna Parka. Keyrði fyrirtækið af stað starfsemina og byggir einkum á úrskurði samkeppniseftirlitsins frá nóvember 2020, en þar var komist að því að Hreyfli var ekki heimilt að meina leigubílstjórum að aka fyrir aðra farveitu.

Heildarendurskoðun laga um leigubifreiðar hófst með skipun starfshóps um endurskoðun á þeim reglum sem gilda um leigubifreiðaakstur, í október 2017.

Skilaði starfshópurinn tillögum í skýrslu í mars 2018 og byggir frumvarpið að meginstefnu til á tillögum starfshópsins.

Þá hafa umsagnir sem bárust um efni skýrslunnar og frumvarpsdrög á fyrri stigum verið hafðar til hliðsjónar, en frumvarpið hafði áður tvívegis verið lagt fram í samráðsgátt og bárust umsagnir í bæði skiptin frá hagsmunaaðilum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert