Talið að maðurinn hafi brotið á fleiri börnum

Maðurinn er meðal annars grunaður um að hafa notað forritið …
Maðurinn er meðal annars grunaður um að hafa notað forritið Snapchat til að komast í samband við ungmennin og senda þeim kynferðisleg skilaboð. AFP

Skýrsla hefur verið tekin af 6-7 börnum til viðbótar við þau 22 sem karlmaður á sjötugsaldri er grunaður um að hafa brotið gegn. Gæsluvarðhald yfir manninum rennur út á morgun og hefur enn ekki verið tekin ákvörðun um hvort farið verði fram á framlengingu varðhalds yfir manninum, en ákvörðunin verður tekin á morgun.

Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn á kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að um sé að ræða mjög umfangsmikla rannsókn sem feli í sér mikla gagnaöflun og samanburð gagna.

Síðast var greint frá því 7. janúar að gæsluvarðhald yfir manninum hefði verið framlengt til 3. febrúar, en áður hafði komið fram að til rannsóknar væru 22 mál þar sem maðurinn kemur við sögu og tengjast kynferðisbrotum gegn börnum á aldrinum 11 til 16 ára. Er hann m.a. grunaður um að hafa sent þeim skilaboð af kynferðislegum toga í gegnum Snapchat.

Ævar staðfestir við mbl.is í dag að meintum brotaþolum, þ.e. börnum sem talið er að maðurinn hafi brotið á, hafi fjölgað um 6-7 frá því áður og nú sé maðurinn grunaður um brot gegn 25-30 börnum. Þá staðfestir hann jafnframt að um sé að ræða ungmenni.

Ævar segir rannsóknina hafa gengið ágætlega og að hún sé nú á lokametrum.

mbl.is