Ekkert staðfest um að eitthvað hafi komið fyrir

Björgunarsveitir gera sig tilbúnar til að hefja leit að nýju …
Björgunarsveitir gera sig tilbúnar til að hefja leit að nýju í morgunsárið eftir að flugvél týndist í gær, en fjórir voru um borð. mbl.is/Þorsteinn

Nú streyma leitarhópar af öllu landinu að Úlfljótsvatni þar sem leit stendur yfir að flugvél með fjórum innanborðs. Útlit er fyrir að fimm til sexhundruð manns komi að leitinni, eins og í gær. Björgunarsveitir finna fyrir miklum samhug og eru dæmi um að almennir borgarar hafi lagt sínar hendur á plóg í þessu viðamikla verkefni.

Síðast sást til vél­ar­inn­ar vest­ur af Úlfljóts­vatni klukk­an 11.45 fyr­ir há­degi í gær.

„Það streyma að leitarhópar af öllu landinu. Ég sé að það eru líka á leiðinni hópar af höfuðborgarsvæðinu. Ég býst alveg passlega við því að einhver hluti af fólkinu sem var að leita í gær muni gefa færi á sér aftur í dag,“ segir Davíð Már Bjarnason upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar í samtali við mbl.is. 

Áfram verður leitað í kringum Þingvallavatn og Úlfljótsvatn og verða ný svæði könnuð í dag.

„Það voru kláruð svæði í gær þannig að menn halda bara áfram, lengra frá því sem áður var leitað og svo er líka farið á hin svæðin og leitað aftur.“

mbl.is

Loftför sem ekki voru frá viðbragðsaðilum leituðu í gær

Spurður hvort talið sé líklegt að vélin hafi farið í Þingvallavatn segir Davíð:

„Ég hef ekki fengið neinar upplýsingar um að það sé talið líklegra en hvað annað. Það sem er sérstakt í þessu er að það eru í raun og veru engar staðfestar upplýsingar um að eitthvað hafi komið fyrir. Það er það sem gerir þetta svona umfangsmikið verkefni. Leitarsvæðið er enn mjög stórt.“

Aðspurður segist Davíð ekki vita til þess hvort fisflugmenn muni leita í dag en hann segir það ekki ólíklegt. 

„Það voru loftför að leita í gær sem voru ekki frá viðbragðsaðilum. Það er einhvern veginn þannig að það fer ekkert á milli mála að það er stór leitaraðgerð í gangi og fjögurra saknað. Samstaðan í íslenskri þjóðarsál er svo mikil að þegar eitthvað svona bjátar á þá eru allir boðnir og búnir að gera það sem þeir geta gert, hvort sem það er að opna dyr sínar fyrir svöngu og þreyttu leitarfólki, leggja til tæki og tól eða bara fara út og leita. Það kemur í sjálfu sér ekkert á óvart,“ segir Davíð. 

„Þetta er lítið land og fluggeirinn er þétt samfélag skilst mér. það er þessi samhugur sem býr að baki, fólk er tilbúið að leggja sitt til hliðar til þess að leggja hönd á plóg.“

Magnaður samhugur

Finnið þið fyrir miklum samhug í þessari leit?

„Við finnum fyrir því eins og eiginlega alltaf. Það er alveg magnað  það koma víða að ábendingar um að þetta og hitt sé í boði og menn séu tilbúnir að leggja hönd á plóg þannig að við finnum klárlega fyrir því og erum náttúrlega mjög þakklát fyrir það. Þetta er svona þessi íslenska leið, það eru allir tilbúnir í þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert