„Framboðshliðin er að bresta núna“

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagssráðherra, eftir ríkisstjórnarfund í dag.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagssráðherra, eftir ríkisstjórnarfund í dag. mbl.is/Unnur Karen

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir áhyggjuefni að verðbólga fari hækkandi. Hins vegar telur hann erfitt að sjá að miklar vaxtahækkanir muni slá á innflutta verðbólgu. Stóra atriðið að hans mati er hvernig brugðist verður við í opinberum fjármálum þannig að spenna aukist ekki og halda þannig stöðugleika sem hann segir stærsta hagsmunamálið fyrir heimilin og þá sem eru með húsnæðislán. Þetta segir hann í samtali við mbl.is, en hann telur að húsnæðismál og lóðarskortur verði eitt af stóru málunum í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Passa þurfi að auka ekki spennuna með opinberu fjármálunum

„Það er áhyggjuefni að sjá verðbólguna hækka, en við getum í sjálfu sér komist í gegnum það tímabil trúi ég ef við skoðum þessa undirliggjandi þætti sem eru þróun húsnæðisverðs og innflutt verðbólga,“ segir Bjarni spurður um hækkandi verðbólgu hér á landi og erlendis, hækkandi vöruverð og kjarasamninga framundan. Segir hann að þessu tímabili muni ljúka en stóra atriðið sé hvernig brugðist sé við. „Nú erum við að koma inn á tíma þar sem skiptir máli að auka ekki spennuna með opinberu fjármálunum á sama tíma og við erum með mjög mikinn hallarekstur ríkissjóðs. Við þurfum að vanda okkur við fjármálaáætlunargerðina sem er framundan.“

Bjarni segir jafnframt skipta miklu máli að það takist gott samkomulag á vinnumarkaði og að viðsemjendur bregðist rétt við þeim aðstæðum sem eru uppi. Þannig hafi sagan kennt okkur að þegar meiri óvissa sé í efnahagsmálunum sé erfiðara að gera samninga til lengri tíma. „Þetta er áskorun,“ segir hann um stöðuna framundan.

Hann bendir þó á að hækkandi verðbólga núna sé ekki sér íslenskt vandamál eins og oft áður hefur verið. Þannig sé töluverð verðbólga bæði á evrusvæðinu og í Bandaríkjunum og því fleiri lönd sem standi frammi fyrir áskorunum af þeim sökum.

„Erfitt að sjá að miklar vaxtahækkanir slái á þessa innfluttu verðbólgu

Í næstu viku mun peningastefnunefnd Seðlabankans kynna vaxtaákvörðun sína. Greiningadeildir hafa spáð því að bankinn muni jafnvel hækka stýrivexti sína um 0,75 prósentustig. Spurður út í mögulega vaxtahækkun segir Bjarni að hann ætli að leyfa sér að hafa ekki sterka skoðun á því. „En það er erfitt að sjá að miklar vaxtahækkanir slái á þessa innfluttu verðbólgu. Það sjá það allir. Ég veit að Seðlabankinn sér það eins og allir aðrir. En við skulum sjá hvað setur og hvernig þeir leggja mat á stöðuna,“ bætir Bjarni við.

Hann segist þó ekki eiga von á að verðbólga muni hækka upp í tveggja stafa tölu og bendir á vætningar á markaði út frá skuldabréfaviðskiptum. „Það er enginn að gera ráð fyrir því í dag.“

Lóðir ekki tilbúnar í þeim mæli sem markaðurinn þarf

Viðtalið færist í áttina að komandi kjarasamningum og segir Bjarni að þar séu húsnæðismálin ofarlega á dagskrá og að bregðast þurfi við vegna hækkana á þeim vettvangi, hækkandi vaxta og verðbólgu. Hann segir að þetta sýni að lang stærsta hagsmunamálið fyrir heimilin og þá sem eru með húsnæðislán sé að viðhalda efnahagslegum stöðugleika og að halda vöxtum niðri. „Við eigum að stefna á það umfram allt annað og umfram sértækar aðgerðir,“ segir Bjarni.

Í tengslum við húsnæðisverð hefur lóðaframboð einnig oft komið upp á teninginn og segist Bjarni gera ráð fyrir því að skipulagsmál á höfuðborgarsvæðinu og húsnæðismál verði stórt mál fyrir kosningarnar. Segir hann mikinn skort á lóðum fyrir markaðinn í dag. „Þrátt fyrir allar þessar fínu áætlanir okkar um t.d. svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið erum við samt að lenda í því að lóðir eru ekki tilbúnar til byggingar í þeim mæli sem markaðurinn þarf á að halda núna,“ segir hann. Spurður hvort hann sé að kalla eftir meira framboði játar hann því. „Já framboðshliðin er að bresta núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert