Á annað hundrað skjálfta í dag

Dregið hefur úr skjálftavirkni á Reykjanesskaganum frá því fyrr í …
Dregið hefur úr skjálftavirkni á Reykjanesskaganum frá því fyrr í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á annað hundrað skjálfta hafa mælst síðastliðinn sólarhring og voru kraftmestu skjálftarnir rúm tvö stig að stærð. Aukin virkni var á Reykjanesskaganum og við Grímsey í dag. Þá hefur skjálftahrinan vestan við Ok á Vesturlandi einnig verið nokkuð stöðug síðustu daga.

Einar Bessi Gestson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir skjálftana í dag á Reykjanesskaga merki um aukna virkni í skamman tíma en ekki sé óeðlilegt að jörð skjálfi við Fagradalsfjall. Eftir því sem liðið hefur á daginn hefur dregið úr virkninni en hún gæti tekið við sér á ný. Hann segir ótímabært að segja til um hvort þetta sé merki um að ný skjálftahrina sé að hefjast. Engin merki eru um gosóróa.

Skjálfti af stærð 2,9 mældist vestan við Ok fyrir hádegi í dag þar sem skjálftahrina hefur staðið yfir frá því í desember. Fimm skjálftar hafa mælst síðan þá sem eru þrír að stærð eða stærri en stórir innflekaskjálftar eru nokkuð sjaldgæfir. 

Að sögn Einars telja sérfræðingar Veðurstofunnar að mögulega megi tengja þá skjálfta við spennubreytingar á skjálftasprungum. 

Þá hafa nokkrir skjálftar mælst við Grímsey á Tjörnesbrotabeltinu en þar eru skjálftar nokkuð algengir. 

mbl.is

Bloggað um fréttina