Engin yfirsýn yfir byrlanir síðasta árið

Ekki er vitað hversu margar tilkynningar bárust á síðasta ári …
Ekki er vitað hversu margar tilkynningar bárust á síðasta ári vegna byrlun ólyfjanar. mbl.is/Ari

Lögregla er ekki með yfirsýn yfir fjölda tilkynninga á landsvísu sem hafa borist embættinu vegna byrlun ólyfjanar síðasta árið. Ástæðuna má rekja til skráningarvanda þar sem ekki er sérstaklega haldið um slíkar tilkynningar, að því er fram kemur í svörum lögreglu.

Umræðan um byrlanir fór nokkuð hátt á síðasta ári eftir að áhrifavaldurinn Birgitta Líf Björnsdóttir, sem rekur skemmtistaðinn Bankastræti Club, sagði í samtali við mbl.is í október að byrlanir hefðu aukist verulega á skemmtistöðum í miðbæ. Líkti hún ástandinu við einskonar faraldur. 

Í samtali við mbl.is síðar í þeim mánuði sagði Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari að ekkert byrlunarmál hefði komið á borð héraðssaksóknara. Þó hafi það gerst að embættið hafi verið með kynferðisbrotamál þar sem brotaþola hafi grunað sig hafa orðið fyrir byrlun en ekki hafi tekist að sanna það.

Oft verknaður samhliða öðru kynferðisbroti

Í skriflegu svari lögreglu við fyrirspurn mbl.is kemur fram að ekki sé hægt að veita upplýsingar um hversu margar tilkynningar um byrlanir ólyfjanar hafi borist til lögreglu á landsvísu síðasta ár þar sem „byrlun er ekki skráð sérstaklega í kerfin [...] enda er oft um að ræða verknað sem er samhliða öðru broti s.s. kynferðisbroti.“ 

Þá gat embættið heldur ekki gefið svör um hvort og þá hversu margar ákærur hefðu verið gefnar út á síðasta ári á landsvísu vegna byrlun ólyfjanar.

Tekið er þó fram í svörum embættisins að unnið sé að tillögum um breytt fyrirkomulag skráninga svo hægt verði að nálgast þessar upplýsingar í framtíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert