Ætla að greiða leiðina með bátum

Um 60 manns eru á vettvangi.
Um 60 manns eru á vettvangi. mbl.is/Óttar

Björgunaraðgerðir vegna flugslyssins við Ölfusvatnsvík í Þingvallavatni eru nú í biðstöðu á meðan beðið er eftir búnaði til að brjóta upp ísinn sem liggur yfir vatninu. Ekki er talið líklegt að hægt verði að senda kafara í vatnið í dag en það gæti þó gerst seinni partinn. Þetta segir Rúnar Steingrímsson lögreglufulltrúi af Suðurlandi.

Um 60 manns eru nú á vettvangi vegna aðgerðarinnar, meðal annars á vegum lögreglunnar, sérsveitarinnar, slökkviliðsins, Landhelgisgæslunnar, björgunarsveita og einkaaðila sem aðstoða við björgunina. Þá eru hér einnig sjúkraflutningamenn.

Rúnar Þór Steingrímsson lögreglufulltrúi á Suðurlandi.
Rúnar Þór Steingrímsson lögreglufulltrúi á Suðurlandi. mbl.is/Óttar

Veður hefur verið stillt í morgun en nístandi kuldi er úti sem gerir starfið erfiðara. Hefur hitastigið verið í kringum -10 gráður. 

Eins og áður sagði er Þingvallavatn næstum allt ísilagt og er vatnið nánast við frostmark eða 0,1 gráða. Mikill kuldi og dýpi gera aðgerðir kafara afar hættulegar og er því mikill viðbúnaður á vettvangi til að tryggja öryggi þeirra.

Senda báta til að brjóta ísinn

Verið er að undirbúa báta sem eiga að fara í vatnið og reyna að brjóta upp ísinn sem er um 1 sentímetri að þykkt og eru vonir bundnar við að það fari að blása meira úti og hlýna. Gæti það hjálpað til við að ýta ísnum frá og greiða leiðina fyrir kafara, að sögn Rúnars.

Senda á báta til að brjóta ísinn sem liggur yfir …
Senda á báta til að brjóta ísinn sem liggur yfir vatninu og hamlar aðgerðir. mbl.is/Óttar

Hann segir erfitt að leggja mat á hvort hægt verði að senda kafara út seinni partinn í dag og þykir honum líklegra að það verði ekki fyrr en á morgun. Allt verði þó gert til að ná hinum látnu á land. 

Að sögn Rúnars vona björgunarmenn að hægt verði að ljúka aðgerðum við Þingvallavatn fyrir laugardagskvöld, ef allt gengur upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert