Tveir úrskurðaðir í varðhald vegna skotárásar

Lögreglan er með tengsl fólksins á hreinu.
Lögreglan er með tengsl fólksins á hreinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir karlmenn á þrítugsaldri hafa verið úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald vegna skotárásar á karl og konu í Grafarholti aðfararnótt fimmtudags. Eru mennirnir úrskurðaðir í varðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu, en Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti við mbl.is fyrr í dag að annar maðurinn hefði verið úrskurðaður í varðhald. Nú hefur gæsluvarðhaldsúrskurður yfir þeim báðum verið staðfestur.

Meiðsli fólksins sem varð fyrir árásinni eru töluverð en hvorugt þeirra er í lífshættu, að sögn Margeirs.

Annar maðurinn var handtekinn í húsnæði við Miklubraut í gærmorgun þar sem lögregla og sérsveit ríkislögreglustjóra var með mikinn viðbúnað vegna málsins. Hinn maðurinn var handtekinn eftir hádegið.

Þá hef­ur verið lagt hald á öku­tæki og skot­vopn, sem lög­regl­an tel­ur að hafi verið notað við verknaðinn. 

Tengsl eru á milli árásarmannanna og fórnarlambanna og segir Margeir lögregluna vera með þau á hreinu. Verið að rannsaka tilgang árásinnar og er allt til skoðunar í þeim efnum, meðal annars hvort um einhvers konar hefndaraðgerð er að ræða.

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert