Land rís enn á Reykjanesskaga

Snævi þakinn Reykjanesskaginn séður úr gervihnetti á laugardag. Vinstra megin …
Snævi þakinn Reykjanesskaginn séður úr gervihnetti á laugardag. Vinstra megin við miðju má sjá hvernig hraunið bræðir enn af sér fönn. Ljósmynd/LANDSAT-8

Landið er enn að rísa á Reykjanesskaga, en sérfræðingar Veðurstofunnar fylgjast vel með landrisi víðs vegar um landið. Í Öskju og við Grímsvötn virðist ekkert lát á landrisi, sem gefur vísbendingar um virkni í eldstöðvunum.

Land hefur risið á Reykjanesskaga bæði fyrir og eftir gosið sem varð í fyrra, og alveg þar til nýtt kvikuinnskot átti sér stað fyrir áramót. Síðan þá er landrisið hafið að nýju.

„Það er landris sem á rætur á talsverðu dýpi. Merkismiðjan á því er einhvers staðar á þessu svæði undir Fagradalsfjalli. Það er mjög erfitt að staðsetja það nákvæmlega. Þetta væntanlega þýðir að það er kvikusöfnun á dýpi, ætli það sé ekki svona 12-16 kílómetra dýpi,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur Veðurstofunnar í jarðskorpuhreyfingum.

Samband hefur rofnað við flestar mælistöðvar Veðurstofunnar í Öskju en merki berast þó frá einni stöð, sem er utan í Öskju. Þar segir Benedikt að enn sjáist merki um landris og lítil merki um að hægja sé á því. „En við getum ekki sagt nákvæmlega til um hvernig það er að þróast af því að þetta er bara ein stöð sem er lengra frá. En miðað við það sem við sáum áður en við misstum stöðvarnar út er nokkuð ljóst að það bendir allt til þess að land sé enn að rísa. Það er langlíklegast að við séum að sjá kvikusöfnun á um þriggja kílómetra dýpi kannski.

Það þarf ekki að þýða að það gerist neitt á næstunni, en oft og tíðum er enginn fyrirvari, þetta gerist frekar snöggt. Þannig að það er lítið annað að gera en að fylgjast með þeirri atburðarás.“

Þótt viðvörunarstig við Grímsvötn sé grænt á ný segir Benedikt að þar geti gosið hvenær sem er. „Við sjáum enn þá landris og skjálftavirknin er að aukast. Það ætti ekki að koma neitt á óvart þótt það gysi upp úr þurru. Það er yfirleitt stuttur aðdragandi að gosi í Grímsvötnum, aukinn órói og skjálftavirkni. Menn eru yfirleitt búnir að sjá það áður en gosið kemur upp, en það eru bara nokkrir klukkutímar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »