Lögreglan boðar blaðamenn í yfirheyrslu

Blaðamennirnir þrír sem lögreglan á Norðurlandi eystra hefur boðað í …
Blaðamennirnir þrír sem lögreglan á Norðurlandi eystra hefur boðað í yfirheyrslu vegna meintra brota á friðhelgi einkalífsins. Samsett mynd

Lögreglan á Norðurlandi eystra, sem hefur aðsetur á Akureyri, hefur boðað að minnsta kosti þrjá blaðamenn í yfirheyrslu fyrir meint brot á lögum um friðhelgi einkalífsins í umfjöllunum sínum um aðferðir „skæruliðadeildar Samherja“ gegn blaðamönnum.

Allir þrír með stöðu sakbornings í rannsókninni

Samkvæmt umfjöllun Kjarnans um málið eru Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans og Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður miðilsins tveir þeirra manna sem hafa fengið stöðu sakbornings við rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra, á meintu broti á friðhelgi einkalífsins. Þeim var greint frá þessu símleiðis í dag og þeir boðaðir í yfirheyrslu hjá rannsóknarlögreglumanni embættisins sem mun gera sér ferð til Reykjavíkur til að framkvæma hana.

Sá þriðji, sem einnig hefur stöðu sakbornings í málinu og hefur sömuleiðis verið boðaður í yfirheyrslu, er Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður á Stundinni, að því er Stundin greinir frá.

Í boðun segir lögreglan Aðalstein hafa réttarstöðu sakbornings við skýrslutökuna og því hafi hann rétt á að mæta með lögmann með sér sem lögreglan tilfefni honum við rannsókn málsins.

Sakaðir um að hafa brotið gegn friðhelgi einkalífs

Er blaðamönnunum gefið að sök að hafa skrifað fréttir um „skæruliðadeild Samherja“ upp úr samskiptagögnum sem gæti talist brot á hegningarlögum en í þeim segir að hver sá sem „brýtur gegn frið­helgi einka­lífs ann­ars með því að hnýs­ast í, útbúa, afla, afrita, sýna, skýra frá, birta eða dreifa í heim­ild­ar­leysi skjöl­um, gögn­um, myndefni, upp­lýs­ingum eða sam­bæri­legu efni um einka­mál­efni við­kom­andi, hvort heldur sem er á staf­rænu eða hlið­rænu formi, skal sæta sektum eða fang­elsi allt að 1 ári, enda sé hátt­semin til þess fallin að valda brota­þola tjón­i.“

Í umfjöllun Kjarnans um málið segir að engin þekkt dæmi séu fyrir því að lögregla ákæri blaðamenn fyrir brot sem fela í sér að skrifa fréttir upp úr gögnum. Þó séu fjöldi fordæma fyrir því bæði hérlendis sem og erlendis að fjölmiðlar birti trúnaðargögn sem eigi erindi við almenning.

Þá segir þar einnig það að sé og hafi verið skýr niðurstaða ábyrgðarmanna Kjarnans að hluti þeirra gagna sem umfjöllunin byggði á ætti sterkt erindi og því séu almannahagsmunir af því að fjalla um þau með ábyrgum hætti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert