Ferðalangarnir á Vatnajökli komnir í snjóbíl

Mennirnir ætluðu að fara frá Esjufjöllum í Kverkfjöll, þaðan í …
Mennirnir ætluðu að fara frá Esjufjöllum í Kverkfjöll, þaðan í Grímsfjöll og svo á Öræfajökul. kort/mbl.is

Björgunarsveitamenn á vélsleðum komu að mönnunum tveimur, sem voru á Vatnajökli og höfðu sent út neyðarkall, nú á þriðja tímanum og stuttu síðar var snjóbíll kominn að þeim. Eru mennirnir því komnir inn í hlýjan snjóbílinn, en þeir voru orðnir mjög hraktir, blautir og kaldir á jöklinum.

Eins og kom fram fyrr í dag voru mennirnir tveir, sem eru erlendir ferðamenn, á leið fram og til baka yfir Vatnajökul á gönguskíðum. Sendu þeir út neyðarkall seint í gærkvöldi og fór björgunarsveitarfólk af stað stuttu síðar. Farið var upp á jökulinn á þremur stöðum, en samkvæmt neyðarkallinu voru þeir staðsettir við Hermannaskarð, norður af Öræfajökli. Mjög slæmt veður er á svæðinu, 20-25 m/s og ofankoma og þar með mjög blint.

Færið er mjög þungt á Vatnajökli þessa stundina.
Færið er mjög þungt á Vatnajökli þessa stundina. Ljósmynd/Björgunarfélag Hornafjarðar

Friðrik Jónas Friðriksson, í aðgerðastjórn á Höfn í Hornafirði, segir í samtali við mbl.is að mjög vel hafi gengið að finna mennina. Þeir hafi verið akkúrat á þeim stað þaðan sem neyðarkallið kom og hafi verið búnir að stinga niður skíðum við búðirnar þar sem þeir höfðu komið sér fyrir í neyðarskýli grafnir í fönn. Þá hafi þeir einnig verið búnir að kveikja á snjóflóðasendum sem hefðu getað auðveldað leit að sér.

„Nú skjálfa þeir en þeim verður orðið hlýtt eftir þrjár klukkustundir,“ segir Friðrik, en gert er ráð fyrir að ferðalagið niður af jöklinum taki um þrjár klukkustundir, en farið verður niður Breiðamerkurjökul.. Þá segir hann að mennirnir hafi að öðru leyti verið í lagi, þ.e. þeir voru hvorki veikir né slasaðir, en nokkuð þreyttir eftir vosbúðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert