Mennirnir ná ekki að tjalda og bíða í neyðarskýli

Fjöldi jeppa og tækja er á leið á jökulinn. Reglulega …
Fjöldi jeppa og tækja er á leið á jökulinn. Reglulega þarf að brjóta ís af rúðum í þessu veðri. Ljósmynd/Björgunarfélag Hornafjarðar

Mennirnir tveir sem björgunarsveitir eru nú að sækja upp á Vatnajökul bíða þar í neyðarskýli þar sem ekki er veður til að tjalda. Báðir eru þeir erlendir ferðamenn og vanir vetrarferðalögum, þó þeir hafi ekki áður þverað jökla hér á landi. Eins og er eru um 20-25 m/s og ofankoma á svæðinu þannig að skyggni er lítið sem ekki neitt.

Þetta segir Friðrik Jónas Friðriksson, sem er í aðgerðastjórn á Höfn í Hornafirði, í samtali við mbl.is.

Náðu sambandi við mennina í morgun

Friðrik segir að neyðarkallið hafi komið seint í gærkvöldi, en klukkan átta í morgun hafi aðgerðastjórn náð sambandi við mennina í gegnum neyðarsendingarbúnaðinn. Þar hafi þeir greint frá því að veður væri mjög slæmt og að þeir væru báðir orðnir kaldir og blautir og hefðust við í neyðarskýli. Um er að ræða þunna poka sem veita grunnskjól fyrir veðri og vindum, en lítið annað er hægt að athafna sig í þeim.

Færið er mjög þungt á Vatnajökli þessa stundina.
Færið er mjög þungt á Vatnajökli þessa stundina. Ljósmynd/Björgunarfélag Hornafjarðar

Friðrik staðfestir að annar mannanna hafi áður þverað Ísland tvisvar að vetri til, frá Norðurlandi og suður yfir hálendið. Þeir hafi hins vegar ekki reynslu af því að fara yfir jöklana.

Ætluðu að þvera jökulinn fram og til baka

Ferðaplan mannanna var frá Breiðamerkurjökli upp í Esjufjöll, þaðan í Kverkfjöll, til baka í Grímsfjöll og svo á Öræfajökul áður en halda átti niður af jöklinum. Friðrik segir að þeir hafi verið staddir á milli Esjufjalla og Grímsfjalls, talsvert nær Esjufjöllum. „Þetta er uppi á hájökli,“ segir hann.

„Staðan er þannig að skyggnið er mjög slæmt. Þeir tala um að sjá húddið á bílnum en ekki framfyrir það,“ segir hann um hvernig björgunarsveitamenn á staðnum lýsa aðstæðum.

Friðrik segir að ferð jeppa upp á jökulinn gangi hægt.
Friðrik segir að ferð jeppa upp á jökulinn gangi hægt. Ljósmynd/Björgunarfélag Hornafjarðar

Snjóbíll ætti að komast til mannanna á þriðja tímanum

Hópar frá Björgunarfélagi Hornafjarðar lögðu af stað í nótt auk hópa frá fleiri sveitum. Var farið upp Breiðamerkurjökul og Skálafellsjökul, auk þess sem sveitir að austan fóru upp Eyjabakkajökul. Friðrik segir að vegna veðurs og færðar hafi sleðar snúið við, en snjóbíll frá Björgunarfélagi Árborgar sé nú um 24 km frá þeim stað þaðan sem neyðarboðið kom. Áætlar hann að fyrsti hópur verði kominn á svæðið um korter yfir tvö í dag.

Friðrik segir að verið sé að nýta allar bjargir sem í boði séu. Þannig hafi bæði jeppar og tæki frá björgunarsveitum á svæðinu og víðar af landinu verið kölluð til, en auk þess hafi tveir vel búnir einkabílar haldið af stað í nótt í samfloti með björgunarsveitunum. Færið sé hins vegar mjög þungt fyrir bíla, líkt og myndirnar bera með sér.

Talsvert lengra er í hópinn sem kom upp Eyjabakkajökul, en hann kom sem auka viðbragð. Friðrik segir að ef fram horfir sem heldur sé líklega hægt að kalla þann hóp til baka innan stundar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert