Bílstjórar beðnir að sýna þolinmæði vegna Klapp-apps

Vegfarendur og forritarar eru ekki parsáttir með Klapp. Stjórnendur Strætó …
Vegfarendur og forritarar eru ekki parsáttir með Klapp. Stjórnendur Strætó bs. eru meðvitaðir um þetta og segja unnið að lagfæringum. mbl.is/Hari

Strætó hefur beðið bílstjóra sína um að sýna farþegum þolinmæði þegar greitt er með Klapp-appinu, greiðsluappi Strætó – ástæðan er sú að algengt er að farþegar lendi í vandræðum með appið. Það fær 1,4 stjörnur af fimm á App Store en 33 hafa gefið því einkunn.

„Stokkur Software sem þróaði appið telur sig vera að komast yfir þessi vandamál,“ segir Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó.

Vandræðin má rekja til villna í appinu, sem voru meiri en notendaprófanir upphaflega gerðu ráð fyrir að sögn Guðmundar Heiðars Helgasonar, upplýsingafulltrúa Strætó. Hann harmar vandræðin, og segir unnið að úrbótum í samstarfi við forritara sem þróuðu appið.

Almenningur, forritarar og vefhönnuðir lýsa óánægju

Þeir sem reiða sig á Strætó vanda appinu ekki kveðjurnar frekar en forritarar og hönnuðir en því til marks hefur verið stofnað til spjallþráða um vandræði í appinu í hópum á Facebook á borð við Samtök um bíllausan lífsstíl, Forritarar á Íslandi og UXuða, vettvangi notendaupplifunarhönnuða.

Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó.
Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó. Ljósmynd/Strætó

Gripið hefur verið til þess ráðs að halda Strætó-appinu opnu að sögn Guðmundar, á meðan villurnar voru enn til staðar. Svo virðist sem iPhone notendur lendi frekar í vanræðum en aðrir þar sem veskið í símanum virtist taka yfir skjáinn en önnur villa sneri að miðakaupum, sem ekki gengu í gegn. 

Þetta hefur verið lagað að sögn Guðmundar en hann segir kortin ganga almennt betur, þar sem hægt sé að kaupa miða í gegnum „mínar síður“.

Síðar meir taki snertilausar greiðslur við

„Vonandi verður í næstu fösum hjá okkur hægt að borga með debetkortum og seinna meir mun vera hægt að nota snertilausar greiðslur á borð við Apple Pay og Samsung Pay. Það er væntanlegt núna seinna,“ segir Guðmundur. Þá bendir hann á að nokkrir hafi lent í vandræðum með QR-kóða sem er skannaður með myndavél í gegnum appið, en kortin virki oft betur þar sem þau innihalda kubb.

„Við erum að vinna að endurbótum og þetta er ekki skemmtilegast í heimi. Þetta er bara pínu svekkjandi,“ játar Guðmundur í lokin.

Inneignarkortin hafa gengið betur að sögn Guðmundar.
Inneignarkortin hafa gengið betur að sögn Guðmundar.
Margir reiða sig á Strætó, þar á meðal skólafólk og …
Margir reiða sig á Strætó, þar á meðal skólafólk og ferðamenn. Kvartað er sáran undan appinu í nokkrum Facebook-grúppum. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is