Skortur á ljósmæðrum vekur áhyggjur

Fæðingardeild Landspítalans.
Fæðingardeild Landspítalans. Ljósmynd/Ragnar Axelsson

Skortur á ljósmæðrum á fæðingarvakt Landspítala vekur upp áhyggjur um að ekki sé hægt að tryggja öryggi skjólstæðinga og sinna þeim verkefnum sem þarf að sinna. Þetta segir Hulda Hjartardóttir, yfirlæknir fæðingarþjónustu Landspítala.

Í gærmorgun voru 363 starfsmenn frá vinnu á Landspítala í einangrun vegna Covid-19 og sendi spítalinn ákall í tilkynningu á vefsíðu sinni þar sem óskað var eftir ljósmæðrum á fæðingarvakt. 

Að sögn Huldu eru um sjö til átta ljósmæður á morgunvakt, lágmark sex, í venjulegu árferði. Í gærmorgun voru þær aftur á móti þrjár, eða helmingi færri en nauðsynlegt er.

Hún segir stöðuna hafa verið einstaklega slæma í gær en samhliða mönnunarvandanum var einnig óvenju mikið að gera. 

Starfsmenn frá öðrum deildum

Spurð hvort viðbrögð hafi borist við ákallinu, segir hún einhver svör hafa borist en fyrst og fremst voru þetta þó starfsmenn innan spítalans. Til að leysa úr svona vanda sé starfskröftum annarra deilda oft beint þangað sem þörf er á.

Að sjálfsögðu er, að sögn Huldu, einnig reynt að biðla til annarra sem ekki eru við vinnu en það er erfitt núna þegar vetrarfrí grunnskóla eru í fullum gangi. Þá eru margir búnir að skipuleggja frí.

mbl.is