Drengurinn var kaldur en með meðvitund

Frá björgunaraðgerðum við Hamarinn í Hveragerði í dag.
Frá björgunaraðgerðum við Hamarinn í Hveragerði í dag. Ljósmynd/Hjálparsveit skáta Hveragerði

Litlu mátti muna að illa færi þegar 10 ára gamall drengur lenti í snjóflóði í Hamrinum í Hveragerði í dag, þar sem hann hafði verið að leik með öðrum börnum. Drengurinn var kaldur en með meðvitund þegar björgunarsveitarmenn komu að honum. Þetta segir Gísli Páll Pálsson, formaður Hjálparsveitar skáta í Hveragerði, í samtali við mbl.is.

Komnir úr húsi nokkrum mínútum eftir útkall

Tilkynning um slysið barst klukkan 13:58 og voru björgunarsveitarmenn frá Hjálparsveit skáta í Hveragerði farnir út úr húsi aðeins nokkrum mínútum síðar, að sögn Gísla.

„Þrír vanir björgunarsveitarmenn fóru reyndar bara beint heiman frá sér upp í Hamarinn sem er dálítið mikilvægt. Það hefur bjargað miklu. Aðrir þrír fóru niður í hús og náðu í búnað. Svo komu átta björgunarsveitarmenn frá Hveragerði og nokkrir aðrir frá öðrum svæðum á Suðurlandi.“

Gísli segir eldri bróðir drengins hafa sýnt snarræði með því að hringja í Neyðarlínuna og kalla þannig eftir aðstoð. Með samstilltu átaki björgunarsveitanna, sjúkraflutningamanna og lögreglunnar hafi svo tekist að bjarga drengnum.

„Hann var með meðvitund en orðinn kaldur þegar við komum að honum. Við hófumst strax handa við að grafa hann upp, bjuggum svo um hann og fluttum á börum yfir í sjúkrabíl. Það er svona stutta útgáfan.“

Segir björgunina hafa tekist vel í alla staði

Því er ljóst að betur fór á en horfðist og segir Gísli það vera mikið fagnaðarefni.

„Við erum bara ferlega ánægð að þetta skyldi hafa farið svona vel og björgunin tókst mjög vel í alla staði. Við erum með fullt af flottu fólki í björgunarsveitunum hérna á Suðurlandi.“

Að sögn foreldra drengins er líðan hans góð eftir atvikum, líkt og lögreglan á Suðurlandi greindi frá fyrr í dag.

Þá hefur lög­regl­an og Slysa­varna­fé­lagið Lands­björg einnig beint þeim til­mæl­um til fólks að vera ekki á ferð við Ham­ar­inn í Hvera­gerði eða við hlíðar hans. Veðuraðstæður hafi skapað fjölda snjó­hengja sem hætta sé á að geti fallið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert