Gegn siðareglum að skylda í læknisskoðun

Frá mótmælum umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi.
Frá mótmælum umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Læknafélag Íslands og félag læknanema Háskóla Íslands telja heimild í frumvarpi til nýrra útlendingalaga, þar sem kveðið er á um að skylda megi útlendinga til að gangast undir læknisskoðun, stríða gegn siðareglum lækna. 

Þetta kemur fram í sameiginlegri umsögn félaganna um frumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra sem birt var til samráðs í janúar. 

Greinin í frumvarpinu heimilar að framkvæmd sé læknisskoðun, til að mynda á umsækjanda um alþjóðlega vernd sem hefur verið hafnað og skal vísa úr landi, á borð við PCR-próf, gegn vilja þeirra.

Í umsögninni segir að sérstaklega sé gert ráð fyrir að heimildin taki til heilbrigðisskoðana til að tryggja að einstaklingur sé nægilega hraustur til að ferðast (e. fit til fly). Hún er sögð stríða gegn Helsinki-yfirlýsingunni, þar sem lýst er yfir að læknar skuli hafa heilsu sjúklinga sinna að leiðarljósi framar öllu öðru, og alþjóðasiðareglum lækna. 

Flókin vandamál

„Sé útlendingur sem vísa á úr landi tilneyddur til að sæta slíkri skoðun, má gefa sér að viðkomandi sé andvígur því að vera vísað úr landi. Oft hafa einstaklingar í slíkri stöðu flókin vandamál, gjarnan á grunni áfallastreitu, og verið er að vísa þeim aftur í aðstæður þar sem þau telja lífi sínu og heilsu ógnað. Með því að gera ofangreint vottorð þyrfti læknir að telja að slík brottvísun úr landi sé viðkomandi fyrir bestu, sbr. ofangreindar siðareglur,“ segir í umsögn félaganna. 

Telja félögin að framkvæmd sem þessi vinni gegn hagsmunum og mannréttindum sjúklinga og stangast á við Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. 

Dómsúrskurðar ekki krafist 

Læknafélagið og félag læknanema gera einnig athugasemd við að ekki sé gert ráð fyrir dómsúrskurð þurfi til að framkvæma læknisskoðanir. Til samanburðar er bent á að slíkt þurfi í meðferðum sakamála. 

Þá eru athugasemdir gerðar við óljóst orðalag á lýsingu hlutverks heilbrigðisstarfsfólks í framkvæmdinni. Hvetja stjórnir félaganna ráðherra til að gera breytingar á heimildinni til læknisskoðunar áður en frumvarpið verður lagt fram fyrir Alþingi.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert