Hætta almennri notkun PCR-prófa

Hraðprófin munu núna duga til að skera úr um hvort …
Hraðprófin munu núna duga til að skera úr um hvort fólk sé smitað af kórónuveirunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki verður lengur í boði fyrir almenning með einkenni sem benda til smits af völdum Covid-19 að panta PCR-sýnatöku heldur verða hraðgreiningapróf einungis í boði. Vegna mikils álags verður notkun PCR-prófa nánast alfarið hætt.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá sóttvarnalækni.

Ríkisstjórnin mun í hádeginu funda um afléttingu sóttvarnaaðgerða, en Will­um Þór Þórs­son heil­brigðisráðherra hef­ur áður sagt að stefnt verði að því að aflétta öll­um tak­mörk­un­um þegar núverandi reglu­gerð renn­ur út á föstu­dag­inn, eða fyrr.

Undanfarna daga hefur bið eftir niðurstöðu úr PCR-sýnatöku verið tveir til þrír sólarhringar en að mati sóttvarnalæknis er slík bið óásættanleg.

Jákvætt hraðgreiningapróf mun því nægja til greiningar á COVID-19 og ekki verður þörf á staðfestingu á greiningunni með PCR-prófi. 

Ekki skylt að dvelja í einangrun

„Þeim sem nú greinast með COVID-19 á hraðgreiningaprófi er ekki skylt að dvelja í einangrun en engu að síður eru tilmæli sóttvarnayfirvalda þau, að fólk dvelji í einangrun í 5 daga. Ef fólk er einkennalítið eða einkennalaust þá getur það mætt til vinnu en fari þá eftir leiðbeiningum um smitgát í 5 daga. Samkvæmt núgildandi reglugerð um einangrun þá er þeim sem greinast með PCR-prófi hins vegar skylt að dvelja í einangrun í a.m.k. 5 daga,“ segir í tilkynningunni.

Notkun á PCR-prófum verður framvegis bundin við ábendingar lækna og þá sem eru með alvarleg einkenni eða alvarlega undirliggjandi sjúkdóma skv. mati læknis. Einnig verður PCR-próf áfram í boði fyrir þá sem þurfa á neikvæðum niðurstöðum slíkra prófa að halda vegna ferðalaga erlendis en þá gegn gjaldi.

mbl.is