Almenningur mótfallinn innrásinni

Kona á gangi í Rússlandi, þar sem Árni Þór er …
Kona á gangi í Rússlandi, þar sem Árni Þór er sendiherra. AFP

„Fólk er mjög slegið yfir fréttum og ég held að það eigi við um almenning í Rússlandi. Enginn óskar sér svona stríðs,“ segir Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Rússlandi um innrás Rússa í Úkraínu.

Árni Þór heldur aftur heim á leið til Moskvu á næstu dögum eftir um vikufrí hér á landi. Tilviljun ræður því að hann er í fríi akkúrat núna en aðspurður segir hann að ekki standi til að færa hann neitt tímabundið frá Moskvu eða slíkt vegna átakanna í Úkraínu.

Hann segir að tímasetning innrásarinnar komi sér svolítið á óvart enda ekki nema tveir dagar síðan rússneskar hersveitir fóru inn í héruð aðskilnaðarsinna í austurhluta landsins. 

„Hitt er svo annað mál að þetta er ein af þeim sviðsmyndum sem búið var að teikna upp og sú versta; sem nú er að raungerast,“ segir Árni Þór.

Margir eiga ættingja og vini í hinu landinu

Hann ítrekar að ólíklegt sé að almennir borgarar í Rússlandi séu hlynntir hernaði forsetans. 

„Þetta eru bræðraþjóðir. Það eru margir Rússar sem eiga ættingja og vini í Úkraínu og öfugt. Ég hugsa að fyrir almenning séu þetta mjög slæm tíðindi en fólk óttast um ættingja og vini,“ segir Árni Þór sem bendir á að Rússar fái oft á tíðum skakka mynd af stöðu mála, vegna fjölmiðla þar í landi:

„Fjölmiðlar þar eru almennt séð mjög hliðhollir stjórnvöldum. Fréttir sem þeir flytja eru býsna litaðar af orðræðu stjórnvalda.“

Árni Þór Sigurðsson, sendiherra og fyrrverandi þingmaður.
Árni Þór Sigurðsson, sendiherra og fyrrverandi þingmaður. Ljósmynd/Aðsend

Spurður um framhaldið og hvort Pútín ætli að reyna að ná Úkraínu á sitt vald eða ef til vill fleiri gömlum Sovétríkjum segi Árni Þór erfitt að ráða í það.

Fleiri lönd gætu verið undir

„Orðræðan hjá rússneskum stjórnvöldum hefur fyrst og fremst beinst að Úkraínu,“ segir Árni Þór. Hann bendir á að í ræðu Pútíns fyrir þremur dögum hafi hann talað um að Úkraína ætti ekki sjálfstæðan rétt:

„Þar vísaði hann til 1917 og að Úkraína hefði fyrst og fremst orðið til sem eining innan Sovétríkjanna þegar þau urðu til eftir Októberbyltinguna það ár,“ segir Árni Þór.

„Ef þú tekur það og afritar yfir á önnur lönd getur fleira verið undir í sjálfu sér. Ég held samt að þeir séu fyrst og fremst með augastað á Úkraínu og við séum að verða vitni að verstu sviðsmyndinni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert