Mótmæla við rússneska sendiráðið

Andrei Menshenin blaðamaður búsettur á Íslandi.
Andrei Menshenin blaðamaður búsettur á Íslandi.

Andrei Menshenin er rússneskur blaðamaður búsettur á Íslandi og hann segir Rússa slegna og sorgmædda yfir innrásinni í Úkraínu. Hann hefur boðað til mótmæla við rússneska sendiráðið í dag kl. 17.30 í gegnum Facebook og hafa á sjöunda hundrað sýnt áhuga og þegar þetta er skrifað hafa 240 manns boðað komu sína.

Margir Rússar sett svarta prófílmynd á Facebook

„Ég var sleginn þegar ég heyrði fréttirnar af innrásinni í morgunsárið og veit að ég tala fyrir munn margra Rússa. Ég hef verið í sambandi við kollega mína víðs vegar um heiminn í dag og þar heyri ég sömu söguna. Það eru allir slegnir yfir þessari atburðarás og mjög sorgmæddir. Margir Rússar hafa sett svarta prófílmynd á samfélagsmiðlana í dag til að reyna að sýna hvernig þeim líður og að þeir séu alls ekki fylgjandi þessari árás Pútíns.“

Andrei hefur unnið sem blaðamaður frá 2009 og þar af lengi í Rússlandi. „Ég þekki rússneskt þjóðfélag mjög vel og þótt það væri ljóst alveg frá 2014 að utanríkisstefna Rússa væri að verða herskárri, held ég enginn hafi getað ímyndað sér þá að Pútín legði til atlögu við Úkraínu eins og gerst hefur núna.“

Erfitt að fá nákvæmar upplýsingar í Rússlandi

Spurður um hvort hann telji að stuðningur Rússa við innrásina sé ekki almennur segir hann: „Það er mjög erfitt að gera sér grein fyrir stöðunni, því það er engin hlutlaus stofnun sem safnar upplýsingum lengur í Moskvu, því það hentaði ekki áróðursáætlunum Pútíns. Ef ég skoða sjálfstæðar kannanir myndi ég gróflega telja að kannski 10-15% stuðningsmanna Pútíns styðji innrásina, 30-35% vilja ekki taka afstöðu og líklega 30-35% eru andvígir innrásinni.“ 

Hann segir að Rússar, Hvít-Rússar og Úkraínumenn á Íslandi sé sameinaðir í sorg yfir atburðarásinni og deili sömu hugmyndum um almenn mannréttindi.  Hann segir að mótmælin séu hans leið til að sýna sorgina og reiðina yfir atburðarásinni. „Við krefjumst þess að Rússar hætti árásinni strax.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert