„Skammt stórra högga á milli“

Veðurviðvaranir eru í gildi á öllu landinu á morgun.
Veðurviðvaranir eru í gildi á öllu landinu á morgun. Kort/Veðurstofa Íslands

„Skammt stórra högga á milli – eða eigum við segja skammt appelsínugulra viðvarana á milli.“ Á þessum orðum hefst færsla Veðurstofu Íslands á Facebook en gefnar hafa verið út bæði appelsínugular og gular viðvaranir fyrir morgundaginn.

Það er ekki í fyrsta sinn í vikunni sem slíkar viðvaranir hafa verið gefnar út.

Appelsínugul viðvörun er fyrir sex spásvæði á morgun og gular viðvaranir fyrir fimm. Það hvessir í nótt og fyrramálið, suðaustan 18-28 m/s á morgun með skafrenningi, snjókomu og síðar talsverðri slyddu eða rigningu.

„Við hvetjum alla til að kynna sér þær viðvaranir sem hafa verið gefnar út og möguleg áhrif veðursins sem er í vændum,“ segir í færslu veðurstofunnar.

Allt landið appelsínugult eða gult

Viðvaranir eru í gildi á öllu landinu eins og sést á vefsíðu Veðurstofunnar.

Á höfuðborgarsvæðinu er spáð 18-25 m/s með slyddu og síðar rigningu. Veðurstofan bendir á að mikilvægt sé að hreinsa frá niðurföllum til að forðast vatnstjón. Þá eru byggingaraðilar hvattir til að ganga vel frá framkvæmdasvæðum.

Spáð er 23-28 m/s og snörpum vindhviðum við fjöll á Suðurlandi og tekið fram að þar verði slæmt ferðaveður. Á Vestfjörðum er spáð hríð og gera má ráð fyrir víðtækum samgöngutruflunum, lokunum á vegum og lélegu skyggni.

Á bæði Norðurlandi eystra og Norðurlandi vestra er spáð 18-25 m/s og snjókomu á köflum. Víða verður skafrenningur og talið líklegt að vegir teppist. Á Austfjörðum er spáð minna roki eða 15-23 m/s en með talsverðri úrkomu, snjókomu eða slyddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert