Óróapúls í miðborginni í nótt

Búast má við því að mikið líf verði í miðborginni …
Búast má við því að mikið líf verði í miðborginni í nótt. Á Bankastræti Club verður dansað fram eftir. Ljósmynd/Ágúst Ólíver

„Við ætlum að byrja snemma og tökum öllum gestum fagnandi,“ segir Geoffrey Þ. Huntingdon-Williams, meðeigandi og rekstrarstjóri á Prikinu við Laugaveg, í samtali við Morgunblaðið.

Búast má við að mikil stemning verði í miðborg Reykjavíkur í kvöld og um helgina. Skemmtistaðir mega hafa opið fram á nótt eftir að sóttvarnaaðgerðum var aflétt á miðnætti. Að undanförnu hefur afgreiðslutími verið skertur og gestir og starfsfólk skemmtistaða hafa þurft að gangast undir ýmsar reglur vegna samkomutakmarkana. Það breytist í kvöld.

„Það er gott hljóð í fólki hér. Við fengum fínan fyrirvara til undirbúnings og nú eru allar pantanir komnar í hús, vaktir á stöðunum eru vel mannaðar og plötusnúðar eru klárir að vaka fram eftir og spila fyrir gesti. Það mun eflaust taka marga tíma að venjast gamla kerfinu. Hér eru starfsmenn sem eru komnir með ágætan starfsaldur, jafnvel tveggja ára, en hafa sjaldnast unnið lengur en rétt fram yfir miðnætti,“ segir Geoffrey en þeir skemmtistaðir sem eru opnir lengst skella ekki í lás fyrr en hálffimm í nótt.

Geoffrey segir aðspurður að hann búist við að gestir vilji fá útrás fyrir uppsafnaða skemmtanaþörf eftir takmarkanir síðustu mánuði.

„Það eru margir nýir og betri siðir sem hafa orðið til í þessum faraldri en ég býst nú við að margir verði eins og beljurnar á vorin. Mér finnst líklegt að það mælist óróapúls í fólkinu í bænum í kvöld.“

Steinþór Helgi Arnsteinsson, eigandi skemmtistaðarins Röntgen við Hverfisgötu, segir að ríkisstjórnin hafi sýnt hugrekki með því að aflétta öllu. Hann býst við því að mjög margir verði í bænum um helgina. „Það verður stuð, ekki spurning. En þetta verður kannski ekki eins og þegar aflétt var síðasta sumar. Fyrir okkur á Röntgen eru þetta bara tveir tímar til viðbótar sem opið verður og við munum bara halda okkar striki.“

Hann segir að það hafi verið líflegt skemmtanahald síðustu helgar í bænum. Mesti munurinn verði að nú verði nokkrir staðir opnir lengur fram eftir. „Ég held að þessar afléttingar muni aðallega verða góðar andlega fyrir fólk.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert