„Rétt að gera okkur grein fyrir því sem gæti orðið framundan“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkisstjórnin fundaði í ráðherrabústaðnum í Tjarnargötu í morgun og var þar meðal annars farið yfir stöðuna í Úkraínu og möguleg áhrif hér á landi af stríðsátökum þar. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir í samtali við mbl.is að þó að talsverður munur sé á utanríkisviðskiptum Íslands og Rússlands núna og fyrir hernám Krímskaga árið 2014 þá séu enn talsverð viðskipti við Rússland, Hvíta-Rússland sem og við Úkraínu.

Enn umtalsverð viðskipti

Bjarni staðfestir að málefni Úkraínu og árásar Rússlands á landið hafi verið rædd á fundinum. Segir hann að utanríkisráðherra hafi gefið stutta skýrslu og svo hafi verið farið yfir umfang utanríkisviðskipta við helstu lönd á svæðinu.

„Það er mikill einhugur að taka þátt í þvingunaraðgerðum, en það er samt ljóst að viðskipti við Rússland eru ekki þau sömu og var fyrir 2014,“ segir Bjarni. Hann tekur þó fram að enn sé talsvert flutt af sjávarafurðum til landanna þriggja, meðal annars lax, makríll og aðrar uppsjávarafurðir.

Olíuhækkanir, áhrif á matvælaverð og verðbólga

Bjarni segir að þegar horft sé til efnahagslegra áhrifa af stríðsátökunum sé það bæði með minni útflutningi, en einnig hafi stríð áhrif á verðbólgu. „Fyrst til skoðunar eru olíuhækkanir sem geta smitast í minni hagvöxt og hærra verðlag,“ segir hann og bætir við að Úkraína sé einnig stór útflytjandi á matvælum, sérstaklega hveiti. „Þetta gæti því haft áhrif á matvælaverð og það er hluti af vísitölunni,“ segir hann.

„Við erum rétt að gera okkur grein fyrir því sem gæti orðið framundan,“ segir Bjarni, en tekur jafnframt fram að athyglin nú sé á stöðunni í Úkraínu og fólkinu þar auk samstöðu með vinaþjóðum um hvernig eigi að svara því með skýrum skilaboðum að þessi framganga sé fordæmd. „Við förum fram á að alþjóðalög séu virt og átök séu stöðvuð,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert