Fjarvinna sögð vera verðmætasta samgöngubótin

AFP

Heimili á höfuðborgarsvæðinu gætu sparað um 15 milljarða króna á ársgrundvelli ef helmingur starfandi fólks vinnur í fjarvinnu á heimili sínu tvo daga í viku. Þetta kemur fram í mati sem BHM hefur unnið í samstarfi við verkfræðistofuna Mannvit á samgöngulíkani höfuðborgarsvæðisins. Bendir BHM á að þetta jafngildi sparnaði við umferð á ársgrundvelli upp á 83 milljónir kílómetra og þrjár milljónir klst.

Fimm sinnum verðmætari

„Samanburður við nýlegt ábatamat á Borgarlínu og Sundabraut leiðir í ljós að fjarvinna er um fimm sinnum verðmætari samgöngubót en Borgarlínan og um 50% verðmætari en Sundabraut. Núvirtur ábati umferðar af fjarvinnu er enda metinn um 370 milljarðar króna til 30 ára skv. mati BHM samanborið við 70 milljarða ábata af Borgarlínu og 250 milljarða ábata af Sundabraut,“ segir í fréttatilkynningu. Áréttað er að kostnaður við framkvæmdir og rekstur sé ekki dreginn frá við þennan samanburð og mat á ábata af samgöngubótunum.

Niðurstöðurnar voru kynntar á fjarfundi í gær og kemur fram í gögnum að á tímum Covid-faraldursins sögðust 74% aðspurðra í könnun eitthvað vinna heima í dæmigerðri vinnuviku eða að jafnaði 2,4 daga í viku. Forsvarsmenn BHM vilja að vinnustaðir setji sér það viðmið að starfsfólki sé heimilt að vinna fjarvinnu í tvo daga í hverri viku þar sem því verður við komið. Ábati í samgöngumálum sé verulegur enda ferðist íbúar höfuðborgarinnar um 1,6 milljarða kílómetra á ári innan borgarinnar og verji 40 milljónum klukkustunda í umferðinni.

„Við hikum ekki við að fullyrða að fjarvinnan er verðmætasta samgöngubótin í sögu höfuðborgarsvæðisins,“ er haft eftir Friðrik Jónssyni, formanni BHM.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert