Sleppir Íslandsmótinu og berst fyrir landið sitt

Sulypa stendur vörð um herstöðvar Úkraínu í vestri.
Sulypa stendur vörð um herstöðvar Úkraínu í vestri. Ljósmynd/Aðsend

Úkraínski stórmeistarinn Oleksandr Sulypa átti að keppa fyrir Taflfélag Reykjavíkur í Íslandsmóti skákfélaga á fimmtudaginn en eftir innrás Rússa í heimalandið er ljóst að lítið verður úr þeim fyrirætlunum. „Ég ætla að vernda landið mitt,“ segir Sulypa í samtali við Morgunblaðið. Hann er kominn með byssu og létt vopn í hendurnar og stendur nú vörð um herstöð Úkraínumanna.

„Ég fór að varnarstöðvum stórborgarinnar Lviv, vestari hlutinn er nálægt Póllandi. Mitt verk er að vakta stöðvarnar og stöðva bíla sem eiga leið hjá. Í dag leitaði ég í yfir 2.000 bílum. Við tökum ekki þátt í bardögum en það eru njósnarar víða, sérstaklega nálægt flugvellinum þar sem ég er,“ segir hann. Sulypa gat ekki sent myndir frá vettvangi þar sem staðsetningin er strategískt mikilvæg og nærri flugvellinum þar sem tekið er á móti hergögnum og mannúðaraðstoð.

„Nú nýlega hnepptum við fjóra rússneska hryðjuverkamenn í varðhald, þeir voru búnir að koma fyrir sprengjum á svæðinu.“

Hvernig ertu búinn?

„Ég er með létt vopn og byssu, öll þung vopn fara á átakasvæðin. En hér á okkar herstöð eru auðvitað vélbyssur og handsprengjur. Ef mér er skipað að gera svo, þá mun ég fara og berjast í Kænugarði. Ég kann að skjóta, lærði það í skólanum.“

Sulypa leiddi úkraínska landsliðið í skák til sigurs á Evrópumóti landsliða í Slóveníu í nóvember síðastliðnum og er vel kunnur íslenska skáksamfélaginu og hefur hann hjálpað til við þjálfun ungs skákfólks hér á landi. En mun skákin hjálpa til á vígvellinum?

„Skákin hjálpar, auðvitað – hún gerir manni auðveldara fyrir að greina óvin frá fjöldanum. Íþróttir gera okkur óttalaus. Ég er ekki hræddur við dauðann og ég er tilbúinn að deyja fyrir landið mitt.“

Hægt er að nálgast fréttina í fullri lengd í Morgunblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »