„Þessar tölur eru svakalegar“

Sigríður segir mikilvægt að fara ekki sama farið aftur eftir …
Sigríður segir mikilvægt að fara ekki sama farið aftur eftir Covid. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri vonast til þess að vitundarvakning gegn kynferðisofbeldi á djamminu, sem hrundið var af stað í dag, komi til með að hafa fælingarmátt fyrir gerendur.

Árið 2020, þegar samkomutakmarkanir vegna Covid-19 voru harðastar, fækkaði tilkynntum nauðgunum um 43 prósent og segir Sigríður mikilvægt að fara ekki aftur í sama farið nú þegar skemmtanalífið er komið aftur í fullan gang. 

Hún segir vitundarvakninguna aðallega snúast um að virkja samfélagið allt gegn kynferðisofbeldi. „Auðvitað gerist ofbeldi bara af hálfu gerenda, en það þarf líka auka fræðslu og aðstoða og við erum með allskonar aðgerðir samhliða. Þetta er bara ein af mörgum. Þetta er kannski sýnilegast gagnvart fólki og það er aðallega til að stilla af hugsunina, að við eigum ekki að sætta okkur við svona skemmtanahald.“

Auka samstarf aðila sem koma að djamminu

Byrlanir á djamminu hafa töluvert verið í umræðunni upp á síðkastið og aðspurð hvort sérstakar ráðastafanir séu gerðar til að reyna að sporna við þeim, segir Sigríður alla aðila hafa verið að skerpa á sínum ferlum varðandi byrlanir. Samstarf aðila sem koma að skemmtanalífinu skipti líka miklu máli.

„Svo bara að vera meira vakandi og auka samstarf aðila sem eru með aðkomu að skemmtanalífinu með beinum eða óbeinum hætti, þannig þeir geti þá verið vakandi ef þeir telja eitthvað óeðlilegt í gangi og leitað þá hjálpar. Það er kannski það sem þetta snýst um,“ segir Sigríður, en skemmtistaðir taka þátt í verkefninu.

Hún viðurkennir að erfitt sé að ná utan um byrlanamál og oft sé erfitt að sanna að um byrlun sé að ræða. „En við erum allavega að þróa leiðir. Þar hefur til dæmis lögreglan á höfuðborgarsvæðinu verið að skoða með bráðamóttökunni hvernig hægt er að vinna þetta hraðar og öruggar. Ég veit að það er talsvert mikil vinna í gangi þar.“

Skráðum nauðgunum fækkaði mikið árið 2020

Þegar upp koma mál þar sem grunur er um kynferðisofbeldi eða byrlun sé mikilvægt að brugðist sé hratt við við.

„Það er er nefnilega mjög mikilvægt að við séum með góðan feril. Ef að það er hringt, að lögreglan sé með stutt viðbragð. Að það sé fenginn leigubíll til dæmis, hratt á staðinn, en það er nú ekki alltaf auðvelt að fá leigubíl á djamminu. Að slíkir ferlar séu til staðar, að það sé hægt að búa til forgang,“ segir Sigríður, en Strætó og leigubílastöðvar koma einnig að verkefninu.

„Við þurfum að passa að fólk fái aðstoð ef á þarf að halda, en þetta snýst um það að allir geti skemmt sér með öruggum hætti. Þessar tölur eru svakalegar,“ segir Sigríður og vísar þar til fjölda skráðra nauðgana hjá lögreglunni.

Á síðasta ári voru 150 skráðar nauðganir en það er 32 prósent aukning frá árinu 2020. Þá voru samkomutakmarkanir vegna Covid-19 hvað strangastar, en árið 2020 fækkaði skráðum nauðgunum um 43 prósent. 114 nauðganir voru skráðar það ár. Fjöldi skráðra nauðgana á árunum 2017 til 2019 var að meðaltali 201 á ári og því ljóst að samkomutakmarkanir höfðu veruleg áhrif.

Er það einmitt ástæða þess að herferðinni er hrundið af stað núna þegar samfélagið er komast aftur í samt lag eftir Covid og djammið að fara aftur í gang.

Enginn sáttur við þetta ástand

Telurðu að svona vitundarvakning muni skila árangri?

„Við auðvitað mælum það síðan, en vonandi. Ég held að enginn sé sáttur við þetta ástand. Við höfum núna tækifæri til að staldra við og gera hlutina öðruvísi. Ekki bara fara aftur í fyrra far. Það er það sem við erum að reyna að vekja athygli á. Gætum við gert þetta öðruvísi, með heilbrigðari hætti. Það er það sem þetta gengur út á,“ segir Sigríður. 

„Þannig þetta sé ekki eitthvað sem við reiknum bara með eða sé hluti af skemmtanalífinu. Að við séum sammála um þetta sé ekki hluti af skemmtanalífinu. Að það náist samkomulag um það,“ bætir hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert