Hugsar enn hvort þetta sé slæmur draumur

Mæðgurnar Alexandra Andrúsenkó og Svitlana Perepelitsía sitjandi við eldhúsborðið í …
Mæðgurnar Alexandra Andrúsenkó og Svitlana Perepelitsía sitjandi við eldhúsborðið í Barmahlíð áður en haldið var með flugi til Egilsstaða, þar sem systir Alexöndru býr og þær munu dvelja. Mágkona Alexöndru og eiginmaður hennar búa í Hlíðunum og tóku þar á móti þeim og börnunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mæðgurnar Alexandra Andrúsenkó og Svitlana Perepelitsía segjast heppnar að eiga ættingja á Íslandi og að þær hafi getað flúið stríðið í Úkraínu ásamt þremur börnum Alexöndru. Eiginmaður hennar varð eftir en fáir karlmenn hafa getað yfirgefið landið eftir að Rússar réðust inn í það.

„Hann varð eftir og sér um þá úr fjölskyldunni sem einnig eru í Úkraínu,“ segir Alexandra þar sem hún ræðir við blaðamann á heimili mágkonu sinnar í Barmahlíð, þangað sem þau komu í dag frá bænum Irpen sem er um 30 kílómetra norðvestur af Kænugarði. 

Krakkarnir slaka á í Barmahlíð í dag.
Krakkarnir slaka á í Barmahlíð í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alexandra segir að hún geti ekki hugsað núna um það hve erfitt það sé að eiginmaður hennar hafi orðið eftir.

Við getum ekki hugsað um einhvern einn heldur verðum við að hugsa um alla. Ég á marga vini og fjölskyldu í Kænugarði, sumir gátu farið en aðrir ekki. Þeir sem eru eftir í höfuðborginni geta ekki farið því það er of hættulegt.“

Sagt að stríð væri hafið

Ferðalag mæðgnanna og barnanna Anastasíu, Platons og Arons hófst í raun á fimmtudagsmorgun í síðustu viku en þá um nóttina hófu Rússar innrás í Úkraínu.

„Fyrrverandi eiginmaður minn hringdi þá í mig og sagði mér að stríð væri hafið. Ég þyrfti að koma mér og börnunum í öruggt skjól undir eins,“ segir Alexandra þegar hún lýsir því hvernig atburðarásin fór af stað hjá fjölskyldunni fyrir tæpri viku.

Farið yfir málið.
Farið yfir málið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þau komust ekkert áleiðis þann daginn og ákváðu að gista um nóttina hjá foreldrum Alexöndru í þorpi sunnan við höfuðborgina. Daginn eftir keyrðu þau vestur á leið en fyrst könnuðu þau hvort fleiri vildu slást í hópinn.

„Fólk trúði því ekki enn að stríð væri hafið. Það hélt að þetta yrðu bara nokkrar sprengjur og síðan yrði því lokið,“ segir Alexandra.

Tók tíma að koma sér úr landinu

Þann dag, föstudaginn 25. febrúar, komust þau 300 kílómetra í vesturátt í átt að landamærum Slóvakíu. „Við vorum gjörsamlega búin á því um kvöldið enda erfitt að vera tólf tíma í bíl og komast frekar hægt áfram. Hvað þá þegar þrjú börn sem þurfa athygli, eins og öll börn, eru með í för,“ segir Alexandra en börnin eru þriggja, fimm og ellefu ára.

Á laugardeginum komust þau að landamærunum en það ferðalag, um 500 kílómetra leið, tók 17 klukkustundir. Þau gistu í landamærabæ og fóru á sunnudagsmorgninum í rútu yfir til Slóvakíu. Það ferðalag, einhverjir fáeinir kílómetrar, tók tólf klukkustundir en Alexandra segir að það sé rosalegt mannhaf við landamærin.

„Fólk kemur þangað í bílum, fótgangandi og í rútum. Margir hafa reynt að koma sér burt úr landinu,“ segir hún en samkvæmt tölum frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna fyrir hádegi höfðu fleiri en 835 þúsund flúið Úkraínu frá því innrás Rússa hófst.

„Við erum heppin að eiga frænku á Ítalíu og á mánudeginum hittum við hana í Slóvakíu og hún keyrði okkur til Ungverjalands,“ segir Alexandra. Þar gistu þau í eina nótt áður en þau flugu svo til Íslands í gær. 

„Við höfðum engin vegabréf fyrir yngstu tvö börnin en það skipti engu máli.“

Spyr vini hvort þeir séu á lífi

Mæðgurnar og börnin áttu flug til Egilsstaða síðdegis í dag. Alexandra vonast til að ná eitthvað að hvílast þar og segir að hún hafi lítið náð að hvílast síðustu vikuna.

„Ég er gjörsamlega svefnlaus eftir ferðina. Í hvert skipti sem ég vakna eftir að hafa dottið út velti ég því fyrir mér hvort þetta hafi verið slæmur draumur.“

Hún byrjar alla morgna á því að senda nokkur skilaboð. „Ég sendi öllum vinum mínum skilaboð um hvort þeir séu á lífi. Þegar þeir svara tölum við ekki um annað, önnur vandamál komast ekki að."

Anastasía í fangi ömmu sinnar.
Anastasía í fangi ömmu sinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alexandra hefur, eins og gefur að skilja, ekki hugmynd um það hversu lengi þær verða á Egilsstöðum enda sé engin leið að spá fyrir um hvað gerist í Úkraínu. 

„Þegar stríðið byrjaði sögðu allir að þetta yrði einn dagur og svo yrðu málin rædd. Svo urðu það tveir dagar og þrír dagar. Þetta er ekki í lagi og enginn veit hvenær þessu lýkur en innrásin virðist grimmilegri eftir því sem á líður.“

Endi með sigri Úkraínu

Hún segir anda Úkraínumanna sterkan og ekki komi til greina að gefa öðru landi þeirra landsvæði. „Við viljum ekki vera hluti af Rússlandi. Úkraína er sjálfstætt ríki,“ segir Alexandra sem er ekki í vafa um hvernig stríðið endi:

„Þetta endar þannig að við vinnum.“

Hún vonast til að hægt verði að snúa aftur heim einn daginn en bendir á að þegar það verði, muni taka langan tíma að laga það sem Rússar hafi rústað. Til að mynda heimili Alexöndru, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Alexandra sýnir mynd af húsinu sínu eftir árás Rússa.
Alexandra sýnir mynd af húsinu sínu eftir árás Rússa. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við viljum bara búa í friði og ró,“ segir Alexandra sem ætlar að hjálpa samlöndum sínum í heimalandinu eins og hægt er næstu daga og vikur með því að senda þeim peninga, lyf og fleira.

Börnin á ferðalagi á leið til frænku sinnar

Við komuna til Egilsstaða býst hún við því að börnin fari í leikskóla og skóla, strákarnir í leikskóla og Anastasia í 5. bekk. 

„Krakkarnir eru í leikskóla, skóla og íþróttum og lifa sínu lífi. Núna hafa þau ekkert. Börn skilja ekki öll vandamál og mín börn skilja ekki alveg hvað er í gangi.“

Alexandra segir að fyrir börnin sé þetta eins og ferðalag vegna þess að systir hennar býr á Egilsstöðum. 

„Börnin skilja ekki að þetta er stríð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina