Þrjátíu frá Úkraínu hafa sótt um vernd

30 hafa sótt um alþjóðlega vernd hér á landi.
30 hafa sótt um alþjóðlega vernd hér á landi. AFP

Alls hafa 30 flóttamenn frá Úkraínu sótt um alþjóðlega vernd hér á landi vegna innrásar Rússa, að sögn Þórhildar Hagalín upplýsingafulltrúa Útlendingastofnunar. Aðspurð segir hún útlit fyrir að meirihluti umsækjenda séu konur og börn.

Þórhildur segist ekki geta sagt til um hvort fólkið fái skjótari meðferð á sínum málum vegna aðstæðna en Úkraína hafi verið tekin af lista yfir örugg ríki um leið og átökin hófust.

Meirihlutinn hafi tengsl við Ísland

Jón Pétur Jónsson, sviðsstjóri landamærasviðs ríkislögreglustjóra, segir meirihluta fólksins hafa einhver tengsl við Ísland. Allur gangur sé á því hvar fólk gefi sig fram. Sumir hafi gefið sig fram við lögreglu á flugvellinum.

Segir Jón Pétur að búist sé við fleirum frá Úkraínu á næstu dögum en erfitt sé að meta fjöldann þar sem átökin eru tiltölulega nýbyrjuð.

Flóttamannanefnd fundaði í dag og var ákveðið að íslensk stjórnvöld myndu axla sína ábyrgð og taka á móti fólki. Þá eru einnig hafnar viðræður við sveitarfélögin um móttöku flóttafólks frá Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert