Flóttamenn frá Úkraínu fá fjöldavernd

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra ætlar að virkja 44. grein útlendingalaga, sem heimilar fjöldavernd flóttamanna frá tilteknum svæðum, sem þýðir að ekki þarf að fjalla um mál hvers og eins til þess að veita þeim hæli. „Ég mun kynna þessa ákvörðun mína í ríkisstjórn í fyrramálið,“ segir Jón í samtali við mbl.is frá Brussel, þar sem hann hefur verið á ráðherrafundi Schengen-ríkja um ástandið vegna innrásar Rússa í Úkraínu.

„Það mun liðka fyrir öllu skipulagi og létta álagi vegna komu flóttafólks frá Úkraínu til Íslands,“ segir Jón. „Við tökum fullan þátt í þessu samstarfi innan Schengen-svæðisins við að taka við þessu fólki á flótta. Það þarf að gerast hratt og örugglega, en um leið að bregðast við ýmsum áskorunum eins og t.d. vegna vegabréfslausra barna. Það er bara tæknilegt mál, en það þarf að leysa og við munum gera það,“ segir Jón.

„Við höfum áður sýnt það við erfiðar aðstæður af þessu tagi þá höfum við jafnvel stigið stærri skref en margar bandalagsþjóðir okkar, en það er óútfært ennþá. Við munum gera það í samvinnu við þessa erlendu aðila, flóttamannanefnd heima og sveitarfélögin.“

Dómsmálaráðherra segir of snemmt að segja til um þann fjölda, sem veitt yrði hæli hér með þessum hætti, það sé einfaldlega enn að skýrast. „Þessi 44. grein hefur aldrei verið virkjuð áður, ekki frekar en samskonar ákvæði hafa verið virkjuð af hálfu ESB,“ segir dómsmálaráðherra. „Þetta eru því mikil tímamót og alger samstaða með Schengen-ríkjunum að grípa til þeirra ráðstafana án tafar.“

Í Brussel var fyrr í dag ákveðið af hálfu Evrópusambandsins (ESB), að virkja tilskipun frá 2001 um bráðabirgðavernd flóttafólks frá Úkraínu, sem varað getur í allt að þrjú ár. Með henni er Úkraínumönnum veitt undanþága frá hefðbundnu regluverki um hælisumsóknir í aðildarríkjum ESB. Tilskipunin var upphaflega samþykkt vegna fjöldaflótta frá stríðsátökum á Balkanskaga en hefur ekki verið virkjuð síðan, jafnvel ekki þegar flóttamannabylgjan reis hæst 2015.

Meira en milljón Úkraínubúa hefur flúið land frá því að innrás Rússa hófst fyrir viku, þar af rífllega hálf milljón í Póllandi og um 130.000 manns hafa leitað hælis í Ungverjalandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert