Gengur ekki „að koma æpandi út alla daga“

Upp úr sauð í óundurbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag þegar Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra svaraði fyrirspurn Loga Einarssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, varðandi það hvort hugmyndir Lilju Alfreðsdóttur viðskiptaráðherra um bankaskatt nytu ekki stuðnings hans og þingflokks Framsóknarflokksins.

Þurfti Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, ítrekað að sussa á þingmenn í salnum sem gripu fram í ráðherra í ræðustóli, þar sem þeim þótti hann ekki svara fyrirspurninni með fullnægjandi hætti.

Sigurður sagði það ekki ganga hjá þingmönnum Samfylkingarinnar „að koma æpandi út alla daga“ og tala um að vaxtastigið væri hátt þegar staðreyndin væri sú að vextir væru ekki háir á Íslandi. Féllu þessi ummæli ráðherrans í grýttan jarðveg og hróp og köll hófust.

„Er þetta eitthvað viðkvæmt'“

„Svaraðu spurningunni,“ var meðal annars kallað. Snéri Sigurður sér þá að forseta þingsins sem stóð upp og bað þingmenn að gefa ræðumanni hljóð til að svara.

„Er þetta eitthvað viðkvæmt?“ var þá kallað, en Sigurður hélt ótrauður áfram að tala. „Er ekkert að marka Framsóknarflokkinn?“ var þá bætt við.

Forseti stóð þá aftur upp og sagði það ekki ganga að fjórir eða fimm þingmenn væru að tala úr sæti sínu í einu og sló ítrekað í bjölluna í tilraun sinni til að þagga niður í mannskapnum. Köllin héldu engu að síður áfram og var forseti hvattur til að gefa ráðherra auka mínútu til að svara.

Menn verða sárir þegar þeir heyra sannleikann

Þegar köllin hættu sagðist Sigurður vilja segja við Loga og þá sem hefðu „galað hvað hæst“  að menn yrðu sárir þegar þeir heyrðu sannleikann. „Staðreyndin er þessi, að bankarnir hlustuðu. Staðreyndin er þessi, vaxtastigið í landinu er lægra heldur en oft áður,“ sagði Sigurður.

Hann sagði að bankarnir hefðu tekið tillit til orða viðskiptaráðherra þegar hún hvatti þá til að skila hluta af hagnaði sínum til viðskiptavinanna með því að hækka ekki vexti sína í samræmi við stýrivaxtahækkun Seðlabankans. Þess vegna hafi ekki komið til þess að beita þeim hugmyndum að refsa bönkunum.

Logi spurði hvort hugmyndir Lilju um aðgerðir til að mæta stöðu fólks sem á í erfiðleikum vegna efnahagsaðstæðna nytu ekki stuðnings innan þingflokks Framsóknarflokksins og hvort Sigurður styddi þær. Lilja talaði meðal annars um að bankarnir ættu að nýta hagnað sinn til að niðurgreiða vexti á íbúðalánum, annars yrði lagður hærri bankaskattur.

Benti Logi á að Lilja hefði fullyrt það í þættinum Sprengisandi að hugmyndir hennar nytu stuðnings bæði formanns og þingflokks en eftir smá eftirgrennslan hefði komið í ljós orð hennar virtust ekki hafa hljómgrunn hjá hinum stjórnarflokkunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert