„Faðmurinn er opinn“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Settur verður á fót aðgerðahópur ráðuneyta með aðkomu flóttamannanefndar og sveitarfélaga til að taka á móti Úkraínumönnum á flótta frá heimalandi sínu vegna innrásar Rússa.

„Þetta kallar á mikla skipulagningu og samhæfingu sem við höfum verið að undirbúa í ráðuneytinu og flóttamannanefnd þannig að þetta geti gengið eins smurt fyrir sig og mögulegt er,” sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi.

Þar kynnti fjármálaráðherra ákvörðun dómsmálaráðherra um að virkja 44. grein útlendingalaga varðandi fjöldaflótta.

Úkraínskir flóttamenn á lestarstöð í borginni Przemysl í austurhluta Póllands …
Úkraínskir flóttamenn á lestarstöð í borginni Przemysl í austurhluta Póllands í morgun. AFP

„Þetta er mjög mikilvæg ákvörðun að mínu mati og þýðir fyrst og fremst tvennt. Annars vegar að fólki er frjálst að koma hingað frá Úkraínu og hins vegar að þessir ferlar sem venjulega fara í gang, þeir eru einfaldaðir,” bætti Guðmundur Ingi við.

Fólkið sem hingað kemur fær dvalarleyfi af mannúðarástæðum, fyrst til eins árs en hægt verður að framlengja það í þrjú ár. Eftir það geta tekið við varanlegri leyfi. Guðmundur Ingi kveðst þó vona að fólkið geti snúið sem fyrst aftur til síns heima ef það kýs svo.

Úkraínumenn í borginni Irpin, fyrir utan Kænugarð, yfirgefa brennandi hús.
Úkraínumenn í borginni Irpin, fyrir utan Kænugarð, yfirgefa brennandi hús. AFP

Erfitt að segja til um fjöldann 

Spurður hversu margir gætu komið hingað frá Úkraínu segir hann gríðarlega erfitt að segja til um það.

„En virkjun greinarinnar þýðir að hingað getur fólk komið og því er frjálst að koma,” segir hann og nefnir að öll ríki Evrópu búi sig nú undir að taka á móti fjölda fólks frá Úkraínu. Meira en milljón manns sé þegar búin að yfirgefa landið og hlutirnir gerist því hratt.

Gætu þetta verið þúsundir?

„Ég vil ekkert segja um það. Við verðum að sjá hvernig næstu dagar og vika þróast en það sem skiptir máli er að öllum er frjálst að koma. Faðmurinn er opinn.”

Góðvildin verði nýtt á einum stað 

Fjöldi fólks, fyrirtækja og félagasamtaka hér á landi hafa þegar boðið fram aðstoð sína vegna móttöku flóttamannanna og til stendur að bjóða upp á úrræði svo að fólk geti leitað á einn og sama staðinn til að bjóða fram aðstoðina. Þannig verði hægt „með skipulögðum hætti að nýta þá góðvild sem við erum að finna alls staðar að úr samfélaginu”.

Úkraínskir hermenn.
Úkraínskir hermenn. AFP

Spurður hvernig Ísland sé í stakk búið til að taka á móti fólkinu segir Guðmundur Ingi stjórnvöld vera að vinna í því að geta tekið á móti öllum þeim sem hingað leita.

„Það er risastórt verkefni og þess vegna erum við að setja á fót sérstakan aðgerðahóp.”

Hann segir að huga þurfi að mjög mörgu og að verkefnið sé ólíkt mörgum öðrum, til að mynda þegar sýrlenskir og afganskir flóttamenn hafa komið hingað. Þar hefur verið um að ræða sérstaka ákvörðun um að taka á móti ákveðnum fjölda á meðan núna sé í fyrsta sinn búið að virkja umrædda lagagrein um fólki sé frjálst að koma hingað.

Kona stendur fyrir framan brennandi hús í borginni Irpin í …
Kona stendur fyrir framan brennandi hús í borginni Irpin í austurhluta Kænugarðs. AFP

Mörg sveitarfélög tilbúin að taka þátt

Inntur eftir því í hvaða sveitarfélög munu helst taka á móti Úkraínumönnunum kveðst Guðmundur ekki vita það að svo stöddu. Mörg sveitarfélög hafi aftur á móti lýst sig reiðubúin til að taka þátt. „Mér finnst ekki ólíklegt að það verði talsverð dreifing á því,” segir hann og nefnir að sumt af því fólki sem er þegar komið til Íslands og mun koma hafi einhverja tengingu við landið. Það muni án efa hafa áhrif á dreifinguna.

Flóttamenn frá Úkraínu á lestarstöð í Przemysl í austurhluta Póllands …
Flóttamenn frá Úkraínu á lestarstöð í Przemysl í austurhluta Póllands í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert