Fljúga með nauðsynjavörur til Úkraínu

Ljúbómíra ásamt fjölskyldu sinni í Reykjavíkurmaraþoninu árið 2014 árið sem …
Ljúbómíra ásamt fjölskyldu sinni í Reykjavíkurmaraþoninu árið 2014 árið sem Rússar hófu stríðið og hertóku Krímskaga. Ljósmynd/Aðsend

Félag Úkraínumanna á Íslandi skipuleggur nú flug til Úkraínu þar sem nauðsynleg hjálpargögn verða flutt til flóttamanna. Félagið segist reyna að styðja við bakið á föðurlandi félagsmanna á sem öruggastan hátt.

„Við höfum fundið fyrir miklum stuðningi, frá Íslendingum, pólska samfélaginu, litháíska samfélaginu og allsstaðar að. Þetta skiptir okkur miklu máli,“ segir Ljúbómíra Petrúk, stjórnarformaður Félags Úkraínumanna á Íslandi, í samtali við mbl.is.

„Það er mikilvægt að hafa í huga að þetta stríð hófst í febrúar 2014 og úkraínska þjóðin mun enn þurfa á hjálp að halda þegar því lýkur.“

Dóttir Ljúbómíru sem er nú níu ára gömul og spyr …
Dóttir Ljúbómíru sem er nú níu ára gömul og spyr hvenær hún þau munu aftur heimsækja Úkraínu. Ljósmynd/Aðsend

Flóttafólkið býr við rafmagnsleysi og vantar því ýmsar nauðsynjavörur. Meðal þeirra vara sem félagið hyggst senda út er matur sem geymist vel, lýsi og hlýr fatnaður.

„Við höfum talað við Lýsi og sölustjóri þeirra hefur tekið mjög vel í beiðni okkar. Einnig munum við reyna að senda hlýjan fatnað og höfum náð sambandi við Icewear í þeim efnum. Þau eru tilbúin að gefa okkur afslátt af fötum, sem við getum keypt fyrir peninginn sem safnast.“

Stríðið hafi áhrif á allan heiminn

Úkraínska sendiráðið gagnvart Íslandi og Finnlandi greiðir fyrir flutningana en félagið hefur síðan haft samband við fyrirtæki sem geta aðstoðað við að veita vörur eða fjármagn fyrir flugið.

Að sögn Ljúbómíru er félagið ekki enn komið með styrki en hefur fundið fyrir miklum meðbyr.

„Okkur langar til að hjálpa Úkraínu og við teljum að þetta sé ekki bara Úkraína sem er í vandræðum, heldur er allur heimurinn þátttakandi og er undir áhrifum eða verður fyrir áhrifum af þessu stríði sem Rússland hóf.“

Fyrir þá sem vilja styðja við verkefni félagsins eru bankaupplýsingar Félags Úkraínumanna á Íslandi eftirfarandi:

 0189-26-004211, 421112-0100 - Félag Úkraínumanna á Íslandi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert